Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram beiðni til utanríkismálanefndar um að óskað verði eftir yfirliti um efni allra funda og samtala sem utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur átt við ráðherra Bandaríkjastjórnar og aðra embættismenn bandarískra stjórnvalda frá 1. janúar 2018 til dagsins í dag.

„Vegna þess í hvaða farveg samskipti Bandaríkjaforseta við önnur ríki eru komin finnst mér full ástæða til að utanríkisráðherra upplýsi um þau samskipti sem hann hefur átt við Bandaríkjastjórn á undanförnum misserum,“ segir Logi.

Vísar Logi fyrst og fremst til þeirrar rannsóknar sem Bandaríkjaþing hefur hafið á meintum embættisbrotum forsetans í samskiptum við forseta Úkraínu en háttalag forsetans í samskiptum við umheiminn almennt skipti auðvitað máli. Inngrip og afskipti Rússa af forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og meint aðkoma og vitund náinna samstarfsmanna Trumps þar um hafi auðvitað verið til rannsóknar í hátt á þriðja ár. Þá hafi forsetinn ítrekað lýst jákvæðu viðhorfi sínu til einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un, með óskum um að honum sjálfum verði sýnd sambærileg virðing heima fyrir. Þjóðarleiðtogar fjölda ríkja hafi þurft að svara fyrir furðulegar fullyrðingar Bandaríkjaforseta um hitt og þetta, þar á meðal um áhuga hans á að eignast Grænland.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Fréttablaðið/Ernir

Logi hefur þegar óskað eftir að utanríkisráðherra komi á fund nefndarinnar vegna þeirrar ákvörðunar Trumps að draga Bandaríkjaher frá Norður-Sýr­landi og landa­mær­um Tyrk­lands sem forseti Bandaríkjanna virðist hafa tekið án nokkurs samráðs við önnur varnar­málayfirvöld Bandaríkjanna og helstu samstarfsríki Bandaríkjanna á sviði varnarmála.

„Það eru ekki aðeins þessi umdeildu samskipti forsetans við önnur ríki sem reka mig til að óska þessara upplýsinga frá utanríkisráðherra heldur sú staðreynd að það er beinlínis stefna ríkisstjórnar Íslands að efla samskipti við Bandaríkin bæði á sviði viðskipta og þjóðaröryggismála,“ segir Logi og bætir við: „Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort þetta er rétti tímapunkturinn til að auka samskiptin með tilliti til þess hver heldur um stjórnartaumana þar.“

Logi segir þessa stöðu gefa utanríkismálanefnd fullt tilefni til að fylgjast nánar með og eðlilegt sé að ráðherra veiti á þessum tímapunkti ítarlegt yfirlit yfir samskipti ríkjanna á undanförnum misserum.

Hann segir þrjá nefndarmenn þegar hafa lýst stuðningi við beiðnina og gerir ráð fyrir að hún verði samþykkt á fundi nefndarinnar í dag.