Maria.V. Zakharova, talsmaður Sergeis Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, staðfesti á blaðamannafundi í Mosvku rétt í þessu að áætlað sé að Lavrovi leiði sendinefnd Rússa á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík í næsta mánuði.

Ráðherrafundurinn stendur 19. og 20. maí. Á þeim fundi munu Rússar taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslendingum. Zakharova sagði að enn sem komið er væri gert ráð fyrir að sendinefnd Rússa komi til Íslands í eigin persónu en taki ekki þátt í fundinum um fjarfundabúnað. Sagði hún meðal annars að undir formennsku Rússa yrði lögð áherslu á málefni frumbyggja.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lýst áhuga á að að hitta Vladimir Putin Rússlandsforseta en Zakharova sagði að Putin hafi ekki hug á slíkum fundi í ljósi framgöngu Bandaríkjamanna gagnvart Rússum að undanförnu sem skaðað hafi tvihliða samskipti þjóðanna.

Í Norðurskautsráðinu eru Ísland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Finnland, Bandaríkin, Rússland og Kanada.

„Þrátt fyrir að komið sé að lokum íslensku formennskunnar munu áherslur og verkefni hennar lifa áfram í störfum Norðurskautsráðsins, má þar helst nefna aukna áherslu á samstarf með ungu fólki á norðurslóðum og ramma um aukið samráð um málefni hafsins, ásamt því að haldið verður áfram að leita leiða til að takast á við heimsfaraldurinn á norðurslóðum,“ sagði í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu eftir síðasta embættismannafund Norðurskautsráðsins undir íslenskri formennsku sem fór fram í Reykjavík í mars síðastliðinn.

Maria V. Zakharova, talsmaður Sergis Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Getty