Utan­ríkis­ráð­herra Ástralíu, Ma­risa Payne, ræddi mál Juli­an Ass­an­ge, stofnanda Wiki­Leaks, við Ant­hony Blin­ken, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, þegar hún heim­sótti Was­hington DC fyrr í mánuðinum.

Ástralskir þing­menn hafa kallað eftir því að Ass­an­ge, sem er ástralskur ríkis­borgari, verði sleppt úr haldi í kjöl­far frétta um að hátt­settir aðilar hjá banda­rísku leyni­þjónustunni CIA hafi gert á­ætlanir um að ræna og jafn­vel myrða Ass­an­ge á for­seta­tíð Donalds Trumps.

Ass­an­ge hefur setið í öryggis­fangelsinu Belmarsh í London síðan 2019 eftir að hann var handtekinn af breskum yfirvöldum í sendi­ráði Ekvadors á grunni þess að hann hefði ekki mætt fyrir rétt. Banda­rísk stjórn­völd hafa reynt að fá hann fram­seldan vegna kæru fyrir brot á banda­rískri njósna­lög­gjöf eftir að Wiki­Leaks birtu gögn árið 2017 sem gáfu yfirlit yfir tölvuvopnabúr Bandarísku leyniþjónustunnar.

Óvíst hverju samtalið mun skila

Að sögn áströlsku skrif­stofuThe Guar­dian sagði tals­maður ástralska utan­ríkis­ráðu­neytisins:

„Payne ráð­herra hefur vakið at­hygli á máli hr. Ass­an­ge við starfs­syst­kini sín í Banda­ríkjunum og Bret­landi, ný­lega við Blin­ken utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna þann 15. septem­ber.“

Tals­maðurinn sagði að ástralska ríkis­stjórnin búist við því að Ass­an­ge fái rétt­láta og sann­gjarna máls­með­ferð, að­gang að heil­brigðis­þjónustu og við­eig­andi réttar­gæslu. Þó er alls ó­víst hverju, ef ein­hverju, sam­tal ráð­herrans við breska og banda­ríska kollega sína hafi skilað í máli Ass­an­ge.

Mál Ass­an­ge komst aftur í sviðs­ljósið eftir að Ya­hoo News birti grein á sunnu­dag sem unnin var upp úr samtölum við meira en þrjátíu fyrrum opinbera aðila innan bandarísku stjórnsýslunnar. Í greininni kom fram að aðilar á vegum CIA og ríkis­stjórnar Donalds Trumps hafi rætt mögu­leikann á því að ræna Ass­an­ge úr sendi­ráði Ekvador í London, þar sem hann dvaldi frá 2012-2019, og jafn­vel myrða hann.

CIA hefur ekki viljað bregðast við greininni og Malcolm Turn­bull, sem var for­sætis­ráð­herra Ástralíu á þeim tíma, sagðist ekki hafa heyrt um málið áður en fréttin var birt.

Ætlar ekki að biðjast afsökunar

Mike Pompeo, sem var for­stjóri CIA frá 2017-2018 og síðar utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, hefur hvorki stað­fest né neitað stað­hæfingunum en segir blaða­menn Ya­hoo News ekki vita hvað fór fram á vegum banda­rísku leyni­þjónustunnar á um­ræddum tíma.

„Ég mun ekki biðjast af­sökunar á þeirri stað­reynd að við og ríkis­stjórnin unnum af kost­gæfni við að ganga úr skugga um að vernda þessi mikil­vægu, við­kvæmu gögn frá hverjum sem er, hvort sem það voru tölvu­þrjótar í Rúss­landi, kín­verski herinn, eða hver sá sem vildi stela þessum gögnum frá okkur,“ sagði Pompeo.

Janet Rice, þing­maður Ástralskra Græningja og með­limur í þing­hópnum Bring Juli­an Ass­an­ge Home, segir allt benda til þess að Banda­ríkja­stjórn hafi aldrei verið um­hugað um að veita Juli­an Ass­an­ge rétt­láta máls­með­ferð. Hún vill að ástralska ríkis­stjórn for­dæmi með­ferðina á honum og kalli eftir því að honum verði tafar­laust sleppt úr haldi.

„Það er öllum vafa undir­orpið að Ass­an­ge hefur ekki, og mun aldrei, fá sann­gjarna máls­með­ferð. Ástralía getur ekki hunsað þetta,“ segir hún.