Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar Græns framboð fór fram í kvöld. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti ræðu og lá henni margt á hjarta, að eigin sögn.

Katrín var stolt af ríkisstjórnarsamstarfinu og talaði um að helmingsfylgi væri við ríkisstjórnina í dag sem er besti árangur ríkisstjórnar hérlendis frá hruni.

Frumkvöðlar í loftslagsmálum

Katrín undirstrikaði frumkvöðlastarf flokksins í þágu loftslagsmála frá upphafi og sagði „Í fyrsta sinn er verulegum fjármunum veitt í okkar stefnumál um kolefnishlutleysi(...)Það var undir forystu Vinstri-grænna sem fyrstu lögin voru sett um loftslagsmál árið 2012 og vegna þess að ég var á staðnum veit ég að það var við lítinn áhuga annarra flokka“.

Katrín sagði þó að loftslagsverkefnið væri stórt og að byltingar væri þörf í málaflokknum til að fólk myndi ekki bregðast komandi kynslóðum.

„Húsnæði er ekki munaður, húsnæði eru mannréttindi“

Katrín talaði um jafnrétti í húsnæðis-, samgöngu- og heilbrigðismálum og nauðsyn þess að draga úr skerðingum í bótakerfinu.

Sagði hún nýtt þriggja þrepa skattkerfi vera sigur fyrir Vinstrihreyfinguna og að það myndi líka gagnast öryrkjum. Talaði Katrín jafnframt um hærri barnabætur. „Þetta er ekki aðeins loforð,“ sagði Katrín, „þetta eru aðgerðir sem þegar eru hafnar.“

Katrín fagnaði einnig nýjum velsældarmælikvarða:

„En það er stór áfangi að næsta fjármálaáætlun mun fela í sér nýjan mælikvarða það sem áhrif útgjalda hins opinbera á lífsgæði fólks verða miðuð við 39 mælikvarða. Verg landsframleiðsla er ekki upphaf og endir alls,“ sagði forsætisráðherrann.

Utanríkismálin VG erfið

„Það skiptir líka máli að ræða erfiðu málin,“ sagði Katrín og kom inn á utanríkismálin sem hún sagði vera flokknum flóknust. Hafi þurft að ræða þau hvað mest innan flokksins.

„Við samþykktum stjórnarsáttmála þar sem kveðið er á um að við munum standa við samþykkta þjóðaröryggisstsefnu um öryggismál íslands út frá breiðri nálgun og varnarsamstarf við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin.

Ég hef ekki verið spurð jafn mikið út í neitt atriði og þetta.“ Hafði Katrín á orði að frasann „á vakt Vinstri grænna“ sem orðið hefur til í tíð ríkistjórnarinnar mætti nota sem sóknartækifæri um þau mál sem flokkurinn hefur náð fram í ríkisstjórninni.

Varpaði hún því næst fram spurningu til Samfylkingarinnar um hvort þau væru hætt að styðja við aðild að Atlantshafsbandalaginu og hvort Viðreisn hygðist hverfa frá þeirri ákvörðun sem tekin var í þeirra ríkisstjórn um uppbyggingu í Keflavík.