Þúsundir flugfarþega sitja nú fastir á alþjóðaflugvellinum í Kenía vegna verkfalls flugvallarstarfsmanna sem hefur valdið mikilli röskun á flugi. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins um málið eru flugvallarstarfsmennirnir ósáttir við fyrirætlanir um sameiningu flugvallarins og ríkisflugfélags landsins og fóru í kjölfarið í verkfall. 

Eins og staðan er nú sitja þúsundir farþega fastir á flugvellinum og hefur herinn verið kallaður á svæðið til þess að hafa hemil á mótmælendum. Nokkur flug hafa farið af stað, en samt sem áður er fjöldi flugfarþega enn fastir á flugvellinum. 

Ríkisstjórn Kenía hefur skilgreint verkfallið sem ólöglegt, en til átaka hefur komið milli starfsmanna flugvallarins og óeirðalögreglunnar. Hafa lögreglumenn notast við kylfur og táragas gegn mótmælendum, sem eru sumir særðir. Nokkrir farþegar hafa einnig þurft á læknishjálp eftir að hafa andað að sér táragasi.