Þúsundir mótmæltu niðurstöðum forsetakosninga í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, í dag. Sigurvegari kosninganna var Salome Zurabishvili sem hlaut um 59 prósent atkvæða og nýtur stuðnings ríkisstjórnarflokkanna í Georgíu. Zurabishvili verður fyrsta konan til að gegna embætti forseta Georgíu en embættið er að mestu leyti táknrænt og valdalaust.

Mótmælendur styðja frambjóðandann Grigol Vashadze sem tapaði kosningum með um 40 prósent atkvæða. Vashadze ávarpaði mótmælendur í dag þar sem hann sagði að niðurstöður kosninganna yrðu ekki samþykktar og kallaði eftir því að þingkosningar yrðu haldnar sem fyrst, en þær eru áætlaðar árið 2020.

Hann sagði að stjórnarandstöðuflokkar efist um lögmæti kosninganna. Hann sagði í ávarpi sínu kosningarnar vera „glæpsamlegan farsa“. Hann sagði að ef að ríkisstjórn hafni kröfum stjórnarandstöðunnar verði haldin önnur mótmæli þann 16. desember þegar vígja á Zurabishvili til embættis.

Greint er frá á Reuters.