Á ellefu sólarhringum voru sóttir yfir 23 þúsund ársreikningar á upplýsingavef Skattsins, en um áramót var tekið í gagnið opinbert vefsvæði sem veitir almenningi rafrænan aðgang að ársreikningum úr ársreikningaskrá.

Reikningana má nálgast gjaldfrjálst á vefsvæðinu en heimilt er að innheimta gjald fyrir ársreikninga á pappír eða öðru sértæku formi.

Frá því að vefsvæðið var opnað þann 1. janúar síðastliðinn fram til hádegis 11. janúar hafði verið farið rúmlega fimmtán þúsund sinnum inn á vefsvæðið og sóttir höfðu verið 23.411 ársreikningar. Samkvæmt svari Skattsins við fyrirspurn Fréttablaðsins ber að hafa í huga að sami aðili getur farið inn á svæðið oftar en einu sinni.