Rúmlega þúsund hafa boðað komu sína í hina svokölluðu Hungurgöngu á morgun. Þá hafa á fimmta þúsund lýst yfir áhuga sínum á göngunni. Ekki er þó um eiginlega göngu að ræða heldur mótmæli á Austurvelli og er yfirskrift þeirra „Láglaunastefnan er ofbeldi!“

Í texta við mótmælin á Facebook kemur fram að fólk á lægstu launum, örorkulífeyri og eftirlaunum hafi ekki nægar tekjur til að lifa út mánuðinn. „Þetta á við um tug þúsundir einstakinga og fjölskyldna. Það er þjóðarskömm. Við mótmælum að fólki fái ekki laun og lífeyri sem dugar fólki til að framfleyta sér. Við mótmælum því að í einu af ríkustu samfélögum veraldar sé fólk dæmt til fátæktar, bjargarleysis, ótta og örvæntingar.“ 

Fyrir mótmælunum stendur hópur sem kallar sig Gulu vestin, sem hafa staðið fyrir fleiri mótmælum, til að mynda við Tryggingarstofnun ríkisins og Landsbankann. Mótmælendur klæddust þá gulum vestum að sið franskra gulvestunga. Þá standa einnig samtökin Jæja auk hreyfingar sem kallar sig Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Örykrjabandalagsins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, munu ávarpa mótmælin. 

„Láglaunafólk á leigumarkaði hefur eftir skatta, gjöld og húsnæðiskostnað aðeins efni á að framfleyra sér fram á eftirmiðdaginn 22. febrúar, sé miðað við markaðsverð á húsaleigu og framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara. Fyrir fulla vinnu fær það ekki laun sem duga til að halda sér á lífi út mánuðinn,“ segir í viðburðinum á Facebook. „Þau sem eru á lægsta örorkulífeyri eða eftirlaunum rétt ná fram á sunnudaginn 24. febrúar miðað við framfærsluviðmiðin og húsaleigu á leigumarkaði. Eftir það tekur hungurgangan við. 

Fólk sem býr við þessara ömurlegu aðstæður er hvatt til að koma á Austurvöll og skila skömminni. Þau bera ekki ábyrgð á fátæktinni sem þau hafa orðið fyrir. Það er samfélagið sem ber ábyrgðina. Og það er til lausn; að hækka lægstu laun og lágmarks lífeyri og eftirlaun.

Fólk sem ofbíður þær aðstæður sem fólk á lægstu launum eru búnar er hvatt til að mæta á Austurvöll og sýna samstöðu með láglaunafólki, öryrkjum og eftirlaunafólki.“