Í skýrslu dóms­mála­ráð­herra og fjár­mála-og efna­hags­ráð­herra um að­draganda og á­stæður þess að Ís­land lenti á gráum lista al­þjóða­stofnunarinnar FATF (Financial Action Task Force) kemur fram að að­dragandinn hafi verið langur og að nokkrar sam­verkandi or­sakir liggja að baki. Skýrslan kom út í dag og má finna á vef Stjórnar­ráðsins.

Þar kemur meðal annars fram að úr­vinnsla Ís­lands á úti­standandi at­riðum í þriðju út­t­tekt stofnunarinnar árin 2006 til 2016 hafi farið al­var­lega út af sporinu í kjöl­far hrunsins. Segir í skýrslunni að líta verði til þeirrar stöðu sem þá var uppi hér á landi og mjög tak­markaðrar getu stjórn­valda til að leggja á­herslu á varnir gegn peninga­þvætti.

Segir að það hafi þó ekki blasað við á þessum árum þar sem ís­lenskt fjár­mála­kerfi hafi verið í tölu­verðri ein­angrun vegna gjald­eyris­hafta og aðrar á­skoranir hafi kallað á at­hygli og vinnu stjórn­valda.

Kosningar tíðar og ráð­herra­skipti ör

Þá kemur enn­fremur fram í skýrslunni að þolin­mæði sam­takanna hafi verið að þrotum komin eftir að Ís­land komst loks út úr eftir­fylgni þriðju út­tektarinnar.

Tak­mörkuð þekking hafi verið á starf­semi og kröfum FATF og því vissu stjórn­völd ekki nægi­lega mikið um um­fang þess starfs sem þátt­taka Ís­lands í sma­tökunum krafðist. Því hafi ekki verið sett aukið fjár­magn í mála­flokkinn fyrr en of seint eða haustið 2017, þegar fjórða út­t­tektin var þegar hafin.

Kemur fram í skýrslunni að ekki verði fram­hjá því horft að fjórða út­t­tektin var ekki nægjan­lega vel undir­búin af Ís­lands hálfu og stjórn­kerfið allt ekki í stakk búið til að taka á málum af þeirri festu sem nauðsny­leg var.
Tekið er fram í skýrslunni að hafa verði í huga að kosningar hafi verið tíðar og ráð­herra­skipti í innan­ríkis-og dóms­mála­ráðu­neytinu ör.

„Verður þannig að ætla að hlutað­eig­andi stofnanir hafi verið lítt með­vitaðar um þær kröfur sem gerðar voru af hálfu FATF og ekki undir það búnar að taka á­byrgð á því verk­efni sem fólst í út­tektinni. Þegar málið var tekið fastari tökum í kjöl­far fjórðu út­tektarinnar, með til­heyrandi upp­byggingu á reynslu og aukinni þekkingu á mála­flokknum, var senni­lega þegar orðið of seint að bregðast við kröfum FATF með full­nægjandi hætti.“

Stjórn­völd ekki með­vituð um grund­vallar­breytingar á að­ferða­færði FATF

Þá kemur enn fremur fram í skýrslunni að þegar fjórða út­tektin hafi farið fram hafi orðið grund­vallar­breytingar á til­mælum og að­ferða­fræði FATF. Það hafi stjórn­völd ekki verið nægi­lega með­vituð um.

„Slæm út­koma Ís­lands úr fjórðu út­tektinni, svo og orð­spor landsins eftir þriðju út­tektina, virðist því hafa vegið þyngra en þær um­fangs­miklu að­gerðir sem ráðist var í til að vinna bug á þeim á­göllum sem út­tektin leiddi í ljós á vörnum Ís­lands gegn peninga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka.“

Bent er á í saman­tekt skýrslunnar að ferlið hafi verið lær­dóms­ríkt og að orðið hafi til dýr­mæt reynsla og þekking innan stjórn­kerfisins. Það hafi nýst vel í þeim um­bótum sem þegar hafi farið fram og muni á­fram nýtast í þeim að­gerðum sem nú er unnið hörðum höndum að til þess að vinna bug á þeim á­göllum sem enn eru taldir vera til staðar á vörnum Ís­lands að þessu leyti.