Nýfallinn úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna mun veita atvinnurekendum aukið frelsi til að neita starfsfólki um endurgjaldslausar getnaðarvarnir.

Verður nú fleirum þeirra gert kleift að komast hjá ákvæði Obamacare, heilbrigðistryggingalöggjafar Obamastjórnarinnar, með vísan til trúar- eða siðferðisástæðna. Ákvæðinu var ætlað tryggja aðgengi að getnaðarvörnum.

Úrskurðurinn sem féll með sjö atkvæðum gegn tveimur í dag er sigur fyrir ríkisstjórn Donald Trumps Bandaríkjaforseta sem hefur unnið að því að veita atvinnurekendum meira frelsi í þessum efnum.

Aðgerðirnar höfðu áður verið stöðvaðar af lægri dómsstigum en hafa nú hlotið náð fyrir æðsta dómsstól landsins.

Allt að 126 þúsund konur gætu misst aðgengi sitt að getnaðarvörnum ef áætlanir Trumps ná fram að ganga samkvæmt mati stjórnvalda.

Í meirihlutaáliti sínu sagði hæstaréttardómarinn Clarence Thomas að heilbrigðistryggingalöggjöfin veiti stjórnvöldum fullt vald til að veita slíkar undanþágur frá ákvæðinu.

Hæstaréttardómararnir Ruth Bader Ginsburg og Sonia Sotomayor greiddu atkvæði gegn niðurstöðunni. Þær sögðu hana ekki í samræmi við fordæmi þar sem hæstiréttur hafi séð til þess að trúarskoðanir sumra gætu ekki skert réttindi annarra.