Eiginkona mannsins sem fannst látinn í íbúð á Ólafsfirði fyrir rúmri viku er meðal annars grunuð um að hafa stungið hann með eggvopni í mars á þessu ári.

Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar frá 5. október síðastliðnum þar sem gæsluvarðhald yfir henni var staðfest.

Úrskurðurinn var ekki birtur á vef Landsréttar fyrr en í gærkvöldi. Hann gefur innsýn í hvað átti sér stað umrædda nótt en hinn látni virðist hafa gert tilraun til að sækja eiginkonu sína í íbúðina þar sem hann fannst síðar látinn.

Lögreglunni á Ólafsfirði barst tilkynning aðfaranótt 3. október um að karlmaður hafi verið stunginn til bana í íbúð við Ólafsveg á Ólafsfirði.

Konan var viðstödd í íbúðinni þegar maður hennar lést ásamt þremur öðrum en þau voru öll handtekinn þegar lögreglan mætti á vettvang.

Konunni var sleppt úr gæsluvarðhaldi þann 7. október ásamt annarri konu sem einnig var viðstödd í íbúðinni þegar maðurinn lést.

Karlmaður situr enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins en hann var nú síðast á þriðjudag úrskurðaður í fjögurra vikna varðhald.

Gögn málsins benda til þess að hinn látni hafi sent aðila til að sækja eiginkona sína í íbúðina þar sem manndrápið átti sér síðar stað.

Þar virðist hún hafa verið við neyslu á áfengi og hugsanlega öðrum vímugjöfum og einstaklingurinn sem hinn látni sendi virðist hafa snúið til baka eftir að konan neitaði að fara með honum.

Þá hafi maðurinn sjálfur ákveðið að fara á staðinn og þá hafi hafist atburðarás sem endaði með andláti hans. Maðurinn var stunginn til bana með eggvopni og annar maður hlaut alvarlega áverka sem virðast vera eftir hníf. Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 3. október en þar segir að ekki sé ljóst hver hafi stungið manninn.