Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð héraðsdóms um brottvikningu lögmannsins Lárusar Sigurðar Lárussonar úr starfi skiptastjóra þrotabús fasteignafélagsins Þórodds ehf.

Fréttablaðið greindi frá því í 3. nóvember síðastliðinn að Lárusi hefði verið vikið frá vegna brots á starfs- og trúnaðarskyldum sínum sem skiptastjóra.

Ástæða brottvikningarinnar var framferði hans í tengslum við sölu á verðmætustu eign bússins, fasteigninni Þóroddsstöðum sem stendur við Skógarhlíð 22 í Reykjavík.

Í úrskurði héraðsdóms kom fram að áður en til gjaldþrotaskipta kom hafi eignin verið til sölu hjá fasteignasölunni Mikluborg sem fengið hafi 200 milljóna kauptilboð í eignina en salan ekki gengið í gegn þar sem kaupandinn gat ekki fjármagnað kaupin. Eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta og Lárus skipaður skiptastjóri, hafi húsið hins vegar verið tekið úr sölu hjá Mikluborg en selt stuttu síðar til sama kaupanda í gegnum fasteignasölu eiginmanns og samstarfsmanns Lárusar, Sævars Þórs Jónssonar.

Kaupverðið var 70 milljónum lægra en fyrra tilboð, eða 130 milljónir.

Hagsmunir Lárus réðu för að mati héraðsdóms

Í úrskurði héraðsdóms var dregin sú ályktun að hagsmunir Lárusar sjálfs hafi ráðið hafi framangreindri ákvörðun, en hún hafi tryggt að þóknun vegna sölu fasteignarinnar rynni til eiginmanns hans.

Vísað var til fjölda annarra tilvika um aðfinnsluverða háttsemi skiptastjórans í úrskurðinum, meðal annars um aðdraganda ákvörðunar um kaupverð eignarinnar. Andstætt því sem hann hafi haldið fram á skiptafundi, virðist hann ekki hafa rætt verðmat eignarinnar við starfsmenn Mikluborgar, hann hafi ekki aflað óháðs verðmats, ekki kannað ábendingu Mikluborgar um mögulegan kaupanda að eigninni, ekki hafa rætt sölu eignarinnar við aðra kröfuhafa en Íslandsbanka og látið fyrirfarast að boða fyrirsvarsmann hins gjaldþrota félags á fund. Bókhaldsgögn hafi einnig bent til þess að eignarhald félagsins á fasteigninni væri að minnsta kosti umdeilt.

Þá eru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir við skort á upplýsingagjöf og ranga upplýsingagjöf til kröfuhafa.

Í niðurlagi úrskurðarins segir:

„Hefur varnaraðili brotið alvarlega við gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum samkvæmt lögum og er framferði hans með þeim hætti að ekki þykir réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum. Honum verður því vikið úr starfi skiptastjóra.“

Landsréttur: Ekki efni til að víkja Lárusi úr starfi

„Verður ekki talið eins og atvikum máls þessa er háttað að framferði sóknaraðila hafi verið slíkt að efni hafi staðið til að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi skiptastjóra.“

Í úrskurði Landsréttar sem kveðinn var upp í morgun segir að skiptastjóranum hafi borið að kynna sér betur byggingarrétt sem þinglýst hafði verið á stærstu eign búsins en tekið fram að ekki hafi verið sýnt fram á að það hefði haft hefði haft umtalsverð áhrif á söluverð eignarinnar. Hann hefði þurft að hafa sölugögn vegna sölu fasteignarinnar tilbúin til afhendingar á skiptafundinum 30. júní 2020 og að honum hafi borið, eins fljótt og unnt var, að halda ágreiningsfund um umdeildar kröfur.

„Á hinn bóginn verður ekki talið eins og atvikum máls þessa er háttað að framferði sóknaraðila hafi verið slíkt að efni hafi staðið til að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi skiptastjóra,“ segir í nýuppkveðnum úrskurði Landsréttar.

Var úrskurður Héraðsdóms því felldur úr gildi.