Ákvæði stjórnarskrárinnar um að Alþingi skeri sjálft úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, fer í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu ef marka má dóm sem yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) kvað upp í belgísku máli í fyrra.

Það var frambjóðandi til belgíska þingsins, Germain Mugemangango, sem vísaði máli sínu til MDE. Aðeins munaði fjórtán atkvæðum að hann næði þingsæti í kjördæmi sínu en þar höfðu 20 þúsund atkvæði verið úrskurðuð ógild, auð eða vafasöm.

Eftir að kröfu hans um endurtalningu með vísan til þessa var hafnað af þar til bærum kosningayfirvöldum beindi hann formlegri kvörtun til þingsins, sem líkt og á Íslandi, er endanlegur úrskurðaraðili um gildi kosninga og kjör alþingismanna.

Kjörbréfanefnd belgíska þingsins lagði til að atkvæði í kjördæmi kærandans yrðu endurtalin en í atkvæðagreiðslu hins nýkjörna þings, sem samanstóð meðal annarra af nýjum þingmönnum úr kjördæmi kærandans, var tillaga kjörbréfanefndar felld og kjörbréf allra þingmannanna sem hlotið höfðu kosningu samkvæmt þeirri talningu atkvæða sem farið hafði fram voru staðfest.

Kæra Mugemangango til MDE var byggð á einni grundvallarspurningu: Getur nýkosið löggjafarþing verið dómari um lögmæti sinna eigin kosninga án allrar aðkomu sjálfstæðs dómsvalds?

Mannréttindadómstóll Evrópu tók mál Mugemangango fyrir
fréttablaðið/getty

Kærandinn hélt því fram í kæru sinni til MDE að þingið hefði tekið afstöðu til kvörtunar hans sem bæði dómari og flokkur sem færi í bága við bæði 3. grein, fyrsta viðauka um rétt til frjálsra kosninga og 13. grein um rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

Belgíska ríkið tók til varna í Strassborg og hélt því fram að niðurstaða þingsins væri rétt og að belgíska kerfið um úrskurðarvald þingsins um kosningar væri byggt á stjórnskipunarhefð og sækti uppruna sinn í grundvallarregluna um þrígreiningu ríkisvalds.

Í einróma niðurstöðu komst yfirdeild MDE að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið í bága við réttindi kærandans samkvæmt bæði 3. grein, 1. viðauka, og 13. grein samningsins. Belgíska þingið væri ekki nægilega hlutlaust, reglur um úrskurðarvald þess hvorki nægilega afmarkaðar né nákvæmar og tryggðu kærandanum ekki málsmeðferð sem veitti honum vernd gegn gerræðislegum, spilltum eða löglausum úrskurði þingsins.

Í dóminum er ekki gengið svo langt að fullyrða að þingið geti undir engum kringumstæðum haft ákvörðunarvaldið, en málsmeðferðin þurfi í öllu falli að vera fullnægjandi.

Í dóminum er vísað til fjölda alþjóðlegra eftirlitsaðila, meðal annarra Feneyjanefndarinnar og Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, um ágalla þess að þjóðþing hafi endanlegt úrskurðarvald um kjör þingmanna án möguleika á að vísa ákvörðun þess til sjálfstæðs dómstóls, meðal annarra,

Þessi niðurstaða MDE getur haft áhrif í nokkrum aðildarríkjum Evrópuráðsins, sem falið hafa sínum þjóðþingum endanlegt úrskurðarvald um kjör alþingismanna. Þeirra á meðal er Ísland.

Fréttablaðið hefur rætt við nokkra sérfræðinga í stjórnskipunarrétti vegna dómsins. Líkt og aðrir eru þeir hugsi yfir stöðunni sem upp er komin. Ekkert eitt töfrasvar sé til um lausn á þeim stjórnskipulega vanda sem blasi við.

„Þetta er vissulega eitthvað sem þarf að leggjast vel yfir því það er augljóst að það dugar ekki til að benda á stjórnarskrána og segja svo að Alþingi sjái bara um þetta á sínum pólitíska meirihluta,“ segir Bjarni Már Magnússon, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík. Dómur yfirdeildar MDE sýni að gerðar séu miklar kröfur til ákvörðunarinnar.