Einn piltur var í dag í Héraðs­dómi Reykja­víkur úr­skurðaður í viku­langt gæslu­varð­hald, eða til 21. janúar, vegna á­rásarinnar sem átti sér stað í Borgar­holts­skóla í gær.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni. Þar segir að lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafi óskað eftir þessu í þágu rann­sóknar hennar á líkams­á­rás í Borgar­holts­skóla í Grafar­vogi um há­degis­bil í gær.

Tveir aðrir piltar, sem einnig voru hand­teknir vegna málsins, eru hins vegar lausir úr haldi lög­reglu, en ekki var fallist á kröfu um gæslu­varð­hald yfir þeim.

Segir í til­kynningu lög­reglu að rann­sókn málsins miði vel. Hins­vegar sé ekki unnt að veita frekari upp­lýsingar um gang hennar að svo stöddu.

Árásin tekin upp á myndband

Sex voru fluttir á slysadeild eftir átökin í gær. Ítrekað hefur komið fram að ungir menn hafi mætt í skólann vopnaðir hafna­­­bolta­kylfu og hníf og hafi ráðist þar á einstakling í skólanum. Tilkynning barst til lögreglu rétt eftir hádegi og var sérsveitin kölluð út vegna átakanna.

Málið er til rannsóknar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn, sagði fyrr í dag í samtali við Fréttablaðið að rannsóknardeildin sé enn að afla sér upplýsinga um hversu margir eru gerendur og þolendur í málinu.

Mynd­band af ofbeldinu í Borgar­holts­skóla fór í kjölfarið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Þar mátti sjá úlpu­klæddan mann berja annan í­trekað með hafna­bolta­kylfunni. Nemendafélagið biðlaði í kjölfarið til nemenda um að dreifa ekki myndböndum frá árásinni.