Búið er að staðfesta áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum mannanna sem talinn er hafa haft í hyggju að undirbúa hryðjuverk hér á landi rétt fyrir hádegi í dag.

Var hann úrskurðaður í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald og verður hann áfram hafður í einangrun.

Verjandi mannsins, Ómar Örn Bjarnþórsson hefur þegar kært úrskurðinn til Landsréttar en hann hefur áður gagnrýnt fyrirkomulag gæsluvarðhaldsins og þá sérstaklega að skjólstæðingur hans sé vistaður í einangrun.

„Þetta er orðið alltof langt nú þegar og fimm vikur í einangrun getur haft alvarlegar og varanlegar afleiðingar fyrir heilsu hans,“ segir Ómar Örn.

Gæsluvarðhald yfir báðum mönnunum átti að renna út í dag en krafist var áframhaldandi varðhalds á meðan rannsókn málsins stendur.

Hinn maðurinn verður svo leiddur fyrir dómara eftir hádegið en fastlega er búist við að gæsluvarðhald hans verði einnig framlengt.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari sagði ekki hægt að segja til um líkur þess að hinn maðurinn verði einnig dæmdur í áframhaldandi gæsluvarðhald.

„Það liggur sama mál undir en auðvitað þarf að sýna fram á þátt hvers og eins. Það liggur í höndum dómara að taka ákvörðun um þetta,“ sagði hann.

Um lengd rannsóknarinnar segir Ólafur að það taki tíma að vinna úr þeim gögnum sem lögregla hefur undir höndum.

„Það var lagt hald á eitthvað í kringum 50 raftæki í þeim húsleitum sem fóru fram við rannsókn málsins, þannig að það er mikil vinna sem fer í að fara í gegnum slíkt.“ Sagði Ólafur en hann gat þó ekki sagt að bein tengsl væru á milli þess magns gagna sem lögregla hefur undir höndum og lengdar gæsluvarðhaldsins.

Fréttin hefur verið uppfærð 6.10.2022 klukkan 13:15.