Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að sóttvarnalækni hafi verið heimilt færa hjón, sem komu til landsins með Norrænu, í sóttvarnahús gegn vilja þeirra.

Málavöxtum er þannig lýst í úrskurði héraðsdóms að hjónin hafi farið í sýnatöku á landamærastöðinni á Seyðisfirði. Í tilvikum þeirra beggja voru sýnin neikvæð. Áttu þeir þá að fara í sóttkví fram að seinni sýnatöku og hugðust verja henni í tilgreinum sumarbústað.

Fengu sýkingar eftir nefstrok

Í kjölfar sýnatökunnar sagðist annar þeirra hafa glímt við þráláta sýkingu og óþægindi í nefkokinu. Þetta hafi verið afar slæmt þar sem þeir glíma báðir við sjúkdóma sem þeir þurfa að taka lyf við og vildu að seinni sýnatökunni yrði háttað öðruvísi en með PCR prófi.

Vegna sýkingar leitaði hinn fyrrnefndi til læknis eftir heimkomu og vottaði læknir um sigið augnlok.

Áður en hjónin fóru í sumarbústaðinn hringdi lögreglumaður sem taldi annan þeirra reyna að komast undan skimun.

Af málatilbúnaði þeirra eins og honum er lýst í úrskurðinum má skilja að þeir telji að um misskilning milli þeirra og lögreglumannsins hafi verið að ræða þar eð þeir hefðu ekki reynt að komast undan skimun heldur óskað eftir því að reynt yrði að koma henni við með öðrum hætti en með PCR prófi, vegna heilsufarsvandamála.

Leituðu læknis og fóru í apótek

Á þessum tíma höfðu þeir farið til læknis eins og fyrr segir og einnig komið við í apóteki en áttu að vera í sóttkví. Voru þeir því færðir í sóttvarnahús.

Hjónin mótmæltu vistun í sóttvarnahúsi og byggðu á því að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu, meðalhófsreglu, andmælarétti og leiðbeiningaskyldu stjórnvalda.

Í forsendum úrskurðar héraðsdóms kemur fram að ekki verði dregið í efa að ákvörðunin um vistun í sóttvarnahúsi eigi lagastoð og að yfirvöld hafi ekki gengið fram með offorsi eða óbilgirni í málinu.

„Því verður hins vegar slegið föstu í málinu að varnaraðili hefur ekki verið til samstarfs við sóttvarnaryfirvöld og brotið reglur um heimasóttkví,“ segir í dómnum. „Það gerði hann með því að fara sannarlega ítrekað úr húsi og skipta um dvalarstað án þess að tilkynna slíkt.“

„Því verður hins vegar slegið föstu í málinu að varnaraðili hefur ekki verið til samstarfs við sóttvarnaryfirvöld og brotið reglur um heimasóttkví.“

Framferði til þess fallið að raska almannahagsmunum

Hafi hinn fyrrnefndi ekki verið tilbúinn til að gangast undir seinni sýnatöku og að því virðist ekki farið í sumarbústaðinn.

Framferði hans sé því til þess fallið að raska almannahagsmunum og hann hafi auk þess ekki verið tilbúinn að gangast undir seinni sýnatöku með sama hætti og aðrir þurfi að gera sem útsettir eru fyrir smiti. Þá hafi yfirvöld ekki gengið lengra en ástæða var til og vægari úrræði en vistun í sóttvarnahúsi ekki sjáanleg.

Var ákvörðun sóttvarnalæknis því staðfest og hjónunum gert að dvelja áfram í sóttvarnahúsi til klukkan 11 í dag.

Það var Lárentsínus Kristjánsson sem kvað upp úrskurðinn.

Sóttvarnalæknir féllst á að sleppa nefstroki

Hjónin kærðu úrskurð héraðsdóms til Landsréttar sem kvað upp úrskurð í gær. Um andmælarétt, rannsóknarreglu og meðalhóf segir í úrskurðinum að afstaða hjónanna til skimunarinnar hafi legið fyrir og ekki skorti á leiðbeiningar sem sem leitt gætu til þess að ákvörðun um skyldudvöl verði felld úr gildi.

Um meðalhófsregluna segir að óhjákvæmilegt sé að líta til þeirrar skyldu löggjafans og stjórnvalda að vernda líf og heilsu borgaranna þegar farsóttir geisi og játa þeim nokkur vikmörk við mat á aðgerðum. Ákvörðun um að vista kærendur í sóttvarnahúsi falli ekki utan þeirra vikmarka en tekið er sérstaklega fram í niðurstöðu Landsréttar að sóttvarnalæknir hafi fallist á, undir rekstri málsins, að sleppa nefstroki og taka aðeins hálsstrok. Samkvæmt þessu var úrskurður héraðsdóms staðfestur í Landsrétti.

Eiríkur Jónsson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir kváðu upp úrskurðinn í Landsrétti.

Dómararnir sem kváðu upp úrskurð í málinu voru þeir og fjölluðu um sóttvarnahótel fyrr í þessum mánuði. Á það við um bæði dómstigin.

Málið annars eðlis en í fyrri úrskurðum

Mál þetta er ólíkt fyrri úrskurðunum um sóttvarnahús að því leiti að í þessu tilviki er um að ræða einstaklinga sem gefinn var kostur á að vera í heimasóttkví en var vísað í sóttvarnahús vegna meintra brota á þeirri sóttkví.

Í fyrri úrskurðum var um að ræða skyldu allra sem komu frá tilteknum svæðum til að dvalja í sóttvarnahúsi án þess að þeim, sem gátu, yrði fyrst gefinn kostur á heimasóttkví.