Stóran hluta uppsagna hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans má rekja til úrræðaleysis og rangrar stefnumótunar síðustu ára að sögn Helgu Rósu Másdóttur, deildarstjóra á bráðamóttökunni. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að tuttugu og fimm hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku hefðu sagt upp eða hætt störfum frá áramótum.

„Sjúklingar hlaðast upp innan bráðamóttök­unnar sem eiga að vera á legudeildum spítalans. Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni hafa þurft að sinna margföldum verkefnum og sjúklingafjölda langt yfir viðmiðum sem eðlileg geta talist. Ofan á óhófleg verkefni er rýmið sem við vinnum í alls ekki gert fyrir slíkan fjölda sjúklinga eða aðstandenda, sem gerir starfsumhverfið afar óhagstætt og erfitt,“ segir Helga í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Helga Rósa Másdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á bráðamóttöku.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra lýsti áhyggjum af stöðunni í samtali við Fréttablaðið að loknum ríkisstjórnarfundi í gær. Hann segir málið til skoðunar, til skemmri og lengri tíma. „Við erum með landsráð í mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu til þess að halda utan um þetta,“ segir Willum.

Helga segir stöðuna hafa verið viðvarandi á bráðamóttökunni síðustu ár en að hún hafi farið versnandi síðasta árið. „Aðgerðir til að mæta þessum vanda þurfa að vera breiðar og vona ég að viðbragðsteymi sem heilbrigðisráðherra hefur skipað komi til með að dreifa álagi betur um heilbrigðiskerfið og að sjúklingar fái rétta þjónustu, tímanlega og á réttu þjónustustigi.“