Þegar Hjörtur Freyr Sæ­land missti vinnuna í vor var honum neitað um at­vinnu­leysis­bætur þar sem hann var í of miklu námi og neitað um náms­lán þar sem hann var í of litlu. Í kjöl­farið stóð hann uppi tekju­laus í tvo mánuði með barn og ó­fríska eigin­konu.

Eftir að hann hafði loks fundið vinnu í Reykja­vík mætti nýja við­bótin í fjöl­skylduna. Hófst þá ný glíma við kerfið þegar Hirti var tjáð að hann ætti ekki rétt á fæðingar­or­lofi. Að hans sögn hefur fjöl­skyldan verið á yfir­drætti frá því í vor og nú búin að klára alla vara­sjóði.

Tölvan sagði nei

Hirti var sagt upp hjá Raf­lausnum raf­verk­tökum snemma í fyrstu bylgju far­aldursins þegar verk­efnum fækkaði skyndilega en sam­hliða starfinu var hann í fjórum á­föngum á raf­virkja­braut Fjöl­brautar­skólans í Breið­holti.

Þegar Hjörtur leitaði til Vinnu­mála­stofnunar í mars var honum tjáð að hann væri í of mörgum einingum til að eiga rétt á at­vinnu­leysis­bótum. Munaði þar um einn á­fanga.

„Þeir sögðu samt að þetta myndi nú alveg reddast út af að­stæðunum í sam­fé­laginu. Þetta yrði bara eitt­hvað sem við gætum skoðað saman og fundið ein­hverja góða lausn á.“

Í lok mars var þó skyndi­lega komið annað hljóð í strokkinn þegar Hjörtur fékk þau skila­boð að hann upp­fyllti ekki kröfur.

„Þá var líka orðið of seint að gera neitt. Ég hefði getað hætt í einum á­fanga og þetta þá reddast bara ef ég hefði fengið þetta svar strax. Þeir segja þá að eina leiðin sé að leita til LÍN þar sem ég er í láns­hæfu námi og yfir eininga­fjölda. En LÍN er með tekju­tengd náms­lán og út af því að ég var í meða­llaunaðri vinnu þá fékk ég svarið að ég væri allt of tekju­hár til að fá náms­lán.“

Var boðið að byrja á bótum næsta sumar

„Ég spurði konuna sem var með mitt mál hjá Vinnu­mála­stofnun bara hreint út hvort kerfið væri ekki að fara að taka mig al­gjör­lega í rassinn þarna, þar sem ég væri milli hamars og steðja. Hún svaraði þá orð­rétt: „Já, þú mátt eigin­lega alveg orða það þannig.““

Hjörtur segir að tveir tímar hafi þá liðið þangað til ráðalausi fulltrúinn hringdi í hann aftur.

Aðstæðurnar hafa haft mikil áhrif á líf fjölskyldunnar sem stækkaði á dögunum þegar Ýmir Aron kom í heiminn. Áður áttu hjónin Freyju Rut sem er á þriðja ári.
Fréttablaðið/Aðsend

„Þá fékk ég þessa svaka góðu lausn hjá annars örugg­lega á­gætri konu sem sagði: „Ef þú bara skráir þig úr námi næsta haust þá færðu að byrja á at­vinnu­leysis­bótum frá næsta júní.“

Það er ó­hætt að segja að þessi lausn hafi ekki beint hentað fjár­hags­stöðu fjöl­skyldunnar. Á þessum tíma­punkti segir Hjörtur að ráða­leysi kerfisins hafi farið að valda honum reiði.

„Yfir­leitt, ef ekki alltaf þá er ég sæmi­lega kurteis en ég man eigin­lega bara eftir því að ég heyrði þarna púlsinn á sjálfum mér og zone-aði út. Það var ekkert hjálp­sam­legt að fara að koma út úr þessu sam­tali eftir að þessi annars myndar­lausn kom.“

Sjálfur segist Hjörtur ekki geta litið fram­hjá kald­hæðni ör­laganna í þessum annars erfiðu að­stæðum. „Til að halda geð­heilsunni þá hef ég reynt að halda í kómíkina í þessu bara.“

Mikið af tilfinningaþrungnum grátsímtölum

Eftir að hafa sótt um 50 störf á tímum heimskreppu með litlum árangri starfaði Hjörtur hjá afa sínum í sumar sem rekur garð­yrkju­stöð í Biskups­tungum, 90 kíló­metrum frá dóttur sinni og eigin­konu sem var þá í á­hættu­með­göngu.

„Þetta var erfiður tími og það var mikið af til­finninga­þrungnum grát­sím­tölum á kvöldin.“

Hjörtur var í sveitinni hjá afa sínum á virkum dögum og kom í bæinn um helgar. Eftir að sumar­af­leysingunum lauk fékk hann starf hjá Secu­ritas í Reykja­vík. Í kjöl­farið heilsaði Hjörtur aftur upp á Vinnu­mála­stofnun til að sækja um fæðingar­or­lof. Lenti hann þá í enn einum botlanganum.

„Í vikunni fyrir fæðingu þá fæ ég póst um ég eigi ekki rétt á fæðingar­or­lofi út af þessum tveimur mánuðum sem ég var tekju­laus. Maður var svo­lítið með aðra hluti á huganum þarna, við vorum að fara í gang­setningu og konan var eins og hún var svo ég sá ekki þennan tölvu­póst fyrr en strákurinn var fæddur.“

Gæti endað með 80 þúsund króna fæðingarstyrk

Í kjöl­farið var Hirti bent á að sækja um fæðingar­styrk náms­manna en allar líkur eru á því að hann eigi ekki rétt á slíkum styrk þar sem hann var ekki í fullu námi.

Ef hann fellur ekki undir það úr­ræði getur hann einungis fengið svo­kallaðan fæðinga­styrk utan vinnu­markaðar sem nemur 80.341 krónum á mánuði.

Ef að þetta fer á versta veg og þú færð bara þennan fæðingar­styrk sérðu fram á að þetta gangi upp hrein­lega?

„Nei, við erum búin með alla vara­sjóði og erum á yfir­drætti núna út af því að við misstum 600 þúsund krónur í tekjum í vor og erum í rauninni bara búin að vera í yfir­drætti síðan. Við erum ekki búin að leyfa okkur neitt, búin að skera á allar á­skriftir og allt saman bara.“

Að­spurður um það hvort næsta skref yrði þá að sækja um fjár­hags­að­stoð hjá Reykja­víkur­borg segist hann ekki gera sér miklar vonir þar heldur.

„Ég er of tekju­hár til þess að fá fjár­hags­að­stoð hjá fé­lags­þjónustunni svo ég fell milli skips og bryggju alls staðar.“

Spurður um næstu skref segist Hjörtur ætla að láta reyna á það að sækja um fæðingar­styrk náms­manna sem sam­svari fæðingar­or­lofi. Ef það bregst er með öllu ó­vist hvort Hjörtur sjái fram á að geta tekið sér fæðingar­or­lof. Hann slær því fram í gríni að í versta falli geti hann reynt að selja kvik­mynda­réttinn að hamfarasögu fjölskyldunnar til hæst­bjóðanda.