„Góðan dag - eru engar reglur um skipsflautur? Hvað á það að þýða að vekja alla kl. sjö? Á fimm mínútna fresti í hálftíma?“
Þannig spurði íbúi á Akureyri á Facebook í gærmorgun.
Íbúinn var í hópi úrillra Akureyringa sem vöknuðu eldsnemma upp við þokulúður í hinu bjarta norðri. Bæjarbúar voru hreinlega lúðraðir.
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri hjá Akureyrarhöfn, segir að hávaðinn hafi orsakast af því að skemmtiferðaskip hafi verið á siglingu í svartaþoku. Ekki hafi verið annað í boði fyrir skipstjórann en að þeyta lúðurinn reglulega.
„Það er leitt að þokulúður trufli svefn bæjarbúa, en samkvæmt vinnureglum skipanna þarf að láta aðra hugsanlega sjófarendur vita af umferð,“ segir Pétur. Hann bætir við að hávaði sé skárri en að sigla niður trillu.
Pétur telur að það hafi ruglað suma bæjarbúa, sem voru eitt spurningarmerki vegna hávaðans, að á sama tíma og lúðurinn gall ítrekað hafi verið glaðasólskin uppi á brekku.
„Nei, þetta gerist ekki oft. Ég held að svona uppákoma hafi síðast orðið árið 2018, að þokulúður valdi fólki ónæði,“ segir hafnarstjórinn.
Pétur telur að lúðurinn hafi byrjað að óma um klukkan 06.30 og hafi heyrst í honum af og til eftir það.
„Ertu klikkaður að spyrja að þessu, hvað heldurðu að yrði um mig ef ég játaði því?“ segir Pétur og hlær, spurður hvort það hafi kannski verið orðið tímabært að bæjarbúar færu snemma á fætur.
Að öðru leyti segir Pétur frábært sumar að baki hjá Akureyrarhöfn. Mikil umferð hafi verið einkennandi í ferðum fiskiskipa, skemmtiferðaskipa og í vöruflutningum.
„Allt komið aftur í hvínandi botn eftir Covid.“