Við erum eins ólík og við erum mörg, mismunandi að stærð og lögun. Við erum langt í frá að vera öll steypt í sama mótið og því er óraunhæft að ákvarða eina heilbrigða og rétta þyngd sem allir eigi að fara eftir.

Líkamsþyngd og -lögun segir ekki allt um heilsu og heilbrigði. Það sem skiptir höfuðmáli er að fólki líði vel í eigin líkama, sé ánægt í eigin skinni, beri virðingu fyrir líkama sínum og hlúi vel að honum. Það er gert með því að sofa vel, hreyfa sig reglulega og borða holla fæðu. En hvers vegna ríkja enn fordómar fyrir ákveðnu holdafari? Það er algengt að fólk beri sig saman við aðra, sér í lagi í samfélagi þar sem allir reyna að fylgja ákveðnum staðli. En samanburður er versti óvinurinn.

Fordómar og mismunun á grundvelli holdafars kemur víða fyrir í vestrænum samfélögum og hefur verið að aukast á undanförnum árum. Fitufordómar eru nú orðnir sambærilega tíðir öðrum algengum fordómum svo sem vegna aldurs, kyns og kynþáttar. Auk þess koma þeir fram á flestum sviðum samfélagsins, líkt og í skólum, atvinnulífi, einkalífi, heilbrigðisþjónustu og fjölmiðlum. Ísland er engin undantekning. Í könnun sem Embætti landlæknis lét framkvæma árið 2015 og var hluti af fjölþjóðlegu verkefni kom í ljós að fitufordómar birtast með svipuðum hætti hér á landi og í öðrum vestrænum samfélögum. Niðurstöður sýndu meðal annars að þrír af hverjum fjórum svarendum áttu vini og 42 prósent fjölskyldumeðlimi sem höfðu orðið fyrir stríðni eða óréttlæti vegna þyngdar sinnar.

Feitt fólk er jaðarsettur hópur í samfélaginu sem býr við fordóma og verður oft fyrir aðkasti vegna holdafars síns. Þá er feitt fólk gjarnan litið hornauga fyrir það að hafa ekki nægan sjálfsaga til þess að axla þá persónulegu ábyrgð að taka sig á og komast í kjörþyngd.

Rannsóknir undanfarinna ára hafa hins vegar sýnt fram á að stjórn yfir eigin holdafari er mun minni en flestir gera sér í hugarlund. Það er frekar undantekning en regla að feitt fólk geti orðið grannt. En það að vera holdugur þýðir ekki að viðkomandi lifi óheilbrigðu lífi, borði skyndibita í öll mál, sælgæti og drekki sykrað gos. Vissulega er offita vandamál víða en hún þó aðeins hluti af heildarmyndinni.

Gen okkar og erfðir stjórna því að mörgu leyti hvort líkami okkar hafi meiri tilhneigingu til að fitna en aðrir. Einstaklingur getur verið vel í holdum og yfir kjörþyngd en verið í mun betra formi en annar einstaklingur sem er í kjörþyngd. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt að ofþyngd tengist minni dánarlíkum en hin svokallaða „kjörþyngd“ og væg offita, þar sem langflestir í offituflokki eru, tengdist ekki aukinni dánartíðni heldur bara efri þyngdarflokkarnir, sem eru hærri en 35 á BMI-stuðlinum.

Ekki var þó tekið tillit til lifnaðarhátta sem er auðvitað mjög mikilvægur þáttur.

En í annarri rannsókn var tekið tillit til áhrifa þátta eins og hvort fólk reykti eða ekki, hvort fólk neytti áfengis í hófi, mataræðis eða þess hvort fólk borðaði fimm skammta af ávöxtum og/eða grænmeti á dag og svo hreyfingar eða þess hvort fólk færi eftir ráðleggingum um hreyfingu í 30 mínútur á dag. Þá kom í ljós að þegar búið var að taka tillit til þessara þátta var ekki lengur samband milli þyngdar og dánartíðni.

„Þetta segir okkur hvað lifnaðarhættir eru mikilvægir – auk þess sem mun auðveldara er að stýra því sem við gerum heldur en útkomu á vigtinni sem margir aðrir þættir geta haft áhrif á fyrir utan lifnaðarhætti, svo sem aldur, erfðir, hormónastarfsemi, ýmis lyfjataka og svo framvegis,“ segir Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis.

„Það eru góðar fréttir að fólk geti haft svona mikil bein áhrif á heilsu sína og það er auðvitað það sem við leggjum áherslu á. Auk þess að vinna alltaf með umhverfið sem þarf að skapa þessa umgjörð sem styður við heilbrigt og ánægjulegt líf. Það má ekki gleyma því að aðstæður fólks til að lifa heilsusamlegu lífi eru misjafnar og því þurfum við líka að vinna á samfélagsgrundvelli að bættri heilsu og vellíðan. Fitufordómar, og í raun allt samfélagslegt óréttlæti, hafa skaðleg áhrif á heilsu og vellíðan fólks og því þurfum við að gæta þess í því hvernig við tölum og nálgumst þessi mál. Að við séum valdeflandi, sýnum virðingu og stuðlum ekki að frekari jaðarsetningu viðkvæmra hópa,“ segir Sigrún.