Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, bað fólk um að sýna því skilning þegar hann þurfti frá að hverfa af mál­þingi sem fram fór í morgun um á­hættu­mat í lax­eldi. 

Fjöldi fólks var samankominn á málþingið sem fram fór í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Sú staða sem upp er komin í stjórn­málunum varð þó þess valdandi að Kristján Þór þurfti að yfir­gefa fundinn til þess að fara á ríkis­stjórnar­fund í Stjórnar­ráðs­húsinu. 

Fundur ríkis­stjórnarinnar hófst klukkan níu en þar var á­kvörðun Sig­ríðar Á. Ander­sen, um að stíga til hliðar sem dóms­mála­ráð­herra, rædd. Ríkis­stjórnin fundar klukkan 16 í dag á ríkis­ráðs­fundi með for­seta Ís­lands á Bessa­stöðum. Þar verður til­kynnt hver tekur við em­bættinu af Sig­ríði. 

Kristján Þór lagði fram frum­varp um breytingu á lögum um fisk­eldi í byrjun þessa mánaðar. Það var til um­ræðu á Al­þingi í síðustu viku og nú á mánu­dag. Við­búið er að tekist verði á um það þegar það verður tekið til frekari umræðu.

Í frum­varpinu er meðal annars gert ráð fyrir því að Haf­rann­sókna­stofnun geri bindandi til­lögur um á­hættu­mat erfða­blöndunar eftir að hafa borið þær undir sér­staka sam­ráðs­nefnd um fisk­eldi.

Málþinginu lauk klukkan 10.30 en hér fyrir neðan má horfa á útsendingu frá því.