„Þetta er efni sem ég kynnti mér þegar ég var ungur maður. Eftir að hafa leitað til allra helstu útgefenda á Íslandi 1980 og fengið höfnun ákvað ég bara að láta þetta bíða,“ segir Erlingur Hansson um 40 ára gamla þýðingu sína á bókinni Byltingin svikin eftir Leon Trotsky sem kom loksins út á vordögum.

Erlingur segir að hann hafi öðru hverju reynt að fá bókina útgefna á þessum 40 árum. „Það sögðu alltaf allir útgefendurnir að þetta væri vel gert hjá mér en þeir vildu samt ekki gefa bókina út. Það voru náttúrulega Stalínistar sem stjórnuðu Máli og menningu 1980.“

Þýðingin fór í gegnum ákveðna endurskoðun og las vinur Erlings, sagnfræðingurinn Guðmundur Jón Guðmundsson, meðal annars yfir handritið.

„Svo fékk ég bara loksins mann til að gefa þetta út. Steingrímur Steinþórsson sem á Skruddu féllst á að gefa bókina út. Það er ekkert flóknara en það,“ segir Erlingur aðspurður hvers vegna bókin hafi loksins komið út nú.

Hann viðurkennir að það hafi verið afar góð tilfinning að fá bókina loksins í hendurnar eftir öll þessi ár. Erlingur segir að Byltingin svikin sé án efa eitt af merkustu ritum Trotsky.

„Stalín rak Trotsky úr landi 1929 og hann var raunar alltaf á flótta eftir það. Trotsky kom til Noregs í árslok 1935 og fékk þar næði í nokkra mánuði eða þangað til norsk stjórnvöld þorðu ekki að hafa hann lengur. Þá voru kratarnir í stjórn en þeir voru mjög róttækir.“

Trotsky settist niður í Noregi sumarið 1936 til að skrifa formála að endurútgáfu á bók sem hann samdi um byltingarnar 1917 sem hafði selst mjög vel.

„Það endaði hins vegar á því að verða þessi bók sem er nú loksins komin út á íslensku. Þetta er mjög málefnaleg greining á ástandinu eins og það var í Sovétríkjunum á þessum tíma en við vitum auðvitað núna að Stalín átti eftir að drepa margar milljónir í viðbót eftir þetta.“

Erlingur segir að Trotsky fari í bókinni yfir mögulega framtíðarþróun Sovétríkjanna.

„Helst vildi hann að gerð yrði pólitísk bylting og aftur komið á lýðræði. Ef það yrði ekki gert myndi það enda á því að gerð yrði félagsleg gagnbylting og komið á kapítalisma. Það rættist en ekki fyrr en 1990.“

Erlingur sem er nýlega kominn á eftirlaun kenndi lengi félagsfræði og sögu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. En á þessi bók erindi í dag, 80 árum eftir að útsendari Stalíns myrti Trotsky í Mexíkóborg?

„Mér finnst þessi bók tvímælalaust eiga erindi í dag og það var þarft verk að koma henni út og það tókst loksins í vor.“