Hljóðbókasafn Íslands þjónar samkvæmt lögum eingöngu þeim sem ekki geta nýtt sér prentað letur og þeir innflytjendur sem vilja nýta sér safnið þurfa því að skila inn umsóknareyðublaði ásamt undirrituðu vottorði, um að greining liggi fyrir, frá fagaðila, þar sem kemur skýrt fram ástæða þess að umsækjandi geti ekki nýtt sér prentað letur.

Fréttablaðið fjallaði í gær um metaðsókn í íslenskunám í haust, en þeir sem eru ekki með greiningu geta ekki nýtt sér bókasafnið, þó mörgum finnst betra að hlusta á íslensku en að lesa hana.

„Ekki er litið á erfiðleika með tungumál sem prentleturshömlun og því falla þeir sem eru að læra íslensku ekki undir lögin,“ segir Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands.

Hún segir ástæðuna fyrir því að vottorða sé krafist þá að þetta sé sérstætt bókasafn og ætlað að gera bækur aðgengilegar fyrir þá sem ekki geta nýtt sér önnur almenningsbókasöfn. Safnið hét áður Blindrabókasafn Íslands.

„Það er rétt að bókasöfn gegna þeirri meginskyldu og lýðræðishlutverki að greiða aðgang að upplýsingum og til þess að blindir, sjónskertir og lesblindir geti haft slíkan aðgang að bókum og upplýsingum var Blindrabókasafnið sett á laggirnar. Síðan var nafni stofnunarinnar breytt í Hljóðbókasafn Íslands,“ segir hún.

Fram kom í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins nýverið að nærri fjögur þúsund Pólverjar væru á atvinnuleysisskrá á Íslandi. Var þá rætt við pólska konu sem segist stöðugt sækja um vinnu en það gangi erfiðlega að sækja um þar sem hún tali ekki reiprennandi íslensku. En hún má ekki hlusta á Njálu, hún verður að lesa hana – nema hún sé með greiningu.

Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands.