Hæstiréttur komst í dag að þeirri niðurstöðu að landeiganda í Gerðarkoti væri óheimilt að fara fram á að sumarbústaðaeigandi fjarlægði sumarbústaðinn af lóðinni hans, eftir að leigusamningur var runninn út.

Kærunefnd húsamála úrskurðaði í október 2016 að leigusamningurinn skyldi framlengdur um 20 ár. Landeigandinn, sem keypti spilduna 2013, krafðist þess að leigulok yrðu staðfest. Þá krafðist hann viðurkenningar á því að þremur eigendum hans bæri að fjarlægja bústaðinn af lóðinni. Til vara að viðurkennt yrði að hann mætti leysa til sín sumarhúsið gegn greiðslu bóta að undangengnu mati.

Fyrri eigandi landsins hafði gert lóðarleigusamning við fólkið árið 1981. Samningurinn var til 25 ára og átti, samkvæmt fólkinu, að miðast við eitt lambsverð árlega. Eftir framlengingu árið 1993 gilti hann til 1. júlí 2016.

Nýr landeigandi, Vésteinn Rúni Eiríksson tilkynnti sumarbústaðareigendunum þegar hann keypti að samningurinn yrði ekki framlengdur og þau skyldu færa húsið.

Lög um frístundabyggð voru sett árið 2008 en þau voru sett í þeim tilgangi að jafna rétt leigutaka og leigusala á frístundalóðum. Hæstiréttur segir að með lögunum sé gripið með afturvirkum hætti inn í ríkjandi ástand og gildandi leigusamning aðila í þessu máli. Vésteinn byggði mál sitt á því innlausnarkrafa á hann legði kvaðir á eignarrétt hans. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að takmörkun á eignarrétti landeiganda gengju ekki lengra en löggjfaanum væri heimilt. Þær byggðust á almennum efnislegum ástæðum og jafnræðis væri gætt.

Húsið mun því að óbreyttu standa á lóðinni næstu 18 árin.

Þess má geta að Vésteinn taldi að sanngjörn leiga fyrir lóðina væri 25 þúsund krónur á mánuði, eða 300 þúsund á ári - en ekki eitt lambsverð. Héraðsdómur vísaði þeirri kröfu frá þar sem hún væri vanreifuð. Hann þarf því að höfða nýtt mál fyrir dómi, hyggist hann sækja þann rétt sinn. Frávísunin stendur ekki í vegi fyrir því, að því er fram kom í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í nóvember í fyrra.

Lambsverð árið 2013 var um 12 þúsund krónur.