Rúmlega sjötugur eiginmaður Magneu Erludóttur er kominn í rúmgott eins manns herbergi á Hrafnistu eftir að hafa dvalið um skeið í þriggja manna herbergi á Landakoti. Magnea sagði nýverið í Fréttablaðinu að aðstæður hans þar hefðu verið ómanneskjulegar.

Eiginmaðurinn glímir við heilabilun – og þakkar Magnea það ekki síst umfjöllun blaðsins að tekið hafi verið á málum hans. „Umfjöllunin vakti svakalega mikla athygli,“ segir hún, „og ég fékk mikil og góð viðbrögð við henni. Almenningur vill að hreyft sé við þessum málum. Það er greinilegt,“ segir hún.

Maður hennar var um tíma á Vífilsstöðum, í góðu atlæti, en eftir að það húsnæði var selt undir einkarekna læknisþjónustu var hann sendur „hreppaflutningum eins og hver annar sveitarómagi“ á Landakot, eins og Magnea orðar það.

Þar blöstu þrengslin við og Magneu féll allur ketill í eld. „En núna á hann aftur heimili,“ segir Magnea og kveðst jafn glöð og hún er þakklát. „Hann er kominn í yndislegt og rúmgott herbergi á Hrafnistu með þremur gluggum, út af fyrir sig.“