Á miðvikudaginn eru fyrirhugaðar breytingar á samkomubanni með tiliti til stöðu COVID-19 hérlendis en þá er einnig fyrirhugað að breyta litakóðunarkerfi almannavarna vegna COVID-19, það fært úr rauðu í appelsínugult. Þetta kom fram í máli Rögnvalds Ólafssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Sam­kvæmt litakóðun­ar­kerfi al­manna­varna er landið allt nú í rauðu ástandi, þ.e. hæsta hættu­stigi og hefur verið það frá því að kerfið var tekið upp í byrjun desember. Sam­kvæmt skil­grein­ingu á rauðu ástandi er það al­var­legt ástand þar sem mik­il hætta er á smit­um og heil­brigðis­kerfið við þol­mörk. Við mat varðandi litinn eru alls konar atriði tekin til skoðunar, ekki aðeins fjöldi smita eða hve margir greinast utan sóttkvíar. Einnig er litið til þess hvort að faraldurinn sé á niðurleið, hvernig staðan er á spítölum og fleira.

Næstkomandi miðvikudag, þann 13. janúar mun landið allt verða fært yfir í appelsínugult ástand sem er næst hæsta hættustigið. Appelsínugult ástand þýðir að miðlungs eða miklar líkur eru á að faraldurinn hafi veruleg áhrif á samfélagið og daglegar athafnir fólks.

Auk­in hætta í app­el­sínu­gulu ástandi

App­el­sínu­gult ástand ber heitið „Auk­in hætta“. Skerðing á þjón­ustu og sam­kom­um er tölu­verð, sýk­ing­ar­hætta hef­ur auk­ist og fólk beðið að halda sig inn­an síns nána tengslahóps og fara sér­stak­lega var­lega í kring­um ein­stak­linga í viðkvæm­um hóp­um. Hætta er á að heil­brigðis­kerfið sé und­ir miklu álagi,“ seg­ir á covid.is.

Fréttablaðið/Skjáskot

Líkt og greint var frá fyrir helgi verður slakað á nokkrum takmörkunum innanlands á miðvikudaginn. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að þær tillögur sem hann hafi lagt til séu gerðar í ljósi þess að vel hefur tekist til að ná tökum á faraldrinum hér á landi undanfarið.

„Að mínu mati er því rétt að reyna að liðka fyrir ýmissa starfsemi og atvinnurekstur með því til dæmis að auka fjöldatakmörk upp í tuttugu manns og einnig held ég að það sé rétti tíminn núna fyrir íþróttastarfsemi og heilsurækt að hefjast á ný með ákveðnum skilyrðum," segir Þórólfur.

Þrjú smit greindust innanlands í gær og voru allir í sóttkví við greiningu. Tuttugu eru inniliggjandi á spítala vegna COVID-19 en enginn er á gjörgæslu.