Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Miðvikudagur 14. júlí 2021
14.38 GMT

Öfgar er hópur kvenna sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki síðast­liðnar vikur. Á­stæðan er svo­kölluð önnur #MeT­oo bylgja en þær Helga Ben, Bryn­hildur Yrsa og Tanja Ís­fjörð eru meðal kvenna sem hafa látið til sín taka í um­ræðunni um kyn­ferðis­of­beldi í ís­lensku sam­fé­lagi.

Þær eru rót­tækar og vilja hrista upp í fólki. „Við erum náttúru­lega að rugga bátnum en við erum ekki hér til að vera þægi­legar. Fólk kallar okkur öfga­fullar en það eru ekki öfgar í jafn­rétti. Við erum rót­tækar vegna þess að það þarf rót­tækar að­gerðir til að breyta rót­grónum hug­myndum,“ segir Tanja sem hefur stundum verið kallaður for­sprakki Öfga­hópsins. Frétta­blaðið settist niður með konunum þremur og þær voru fljótar að leið­rétta þann mis­skilning.

Öfgar saman­stendur af um 10 konum. Þær eru mis virkar en með öflugt stuðnings­net og dug­legar að peppa hver aðra. Þær eru með á­kveðið kerfi til að passa, vernda og hjálpa hver annarri. „Við erum hópur. Við erum heild,“ út­skýrir Helga og Tanja tekur undir með henni.

„Þetta er ekki bara ég eins og sumir fjöl­miðlar virðast halda. Þetta erum við.“ Og þær þekkja allar vel að vera teknar sér­stak­lega fyrir í um­ræðunni, enda þekkt taktík feðra­veldisins til að þagga niður í bar­áttu þol­enda, út­skýra þær.

Traust og gagnkvæm virðing

Öfgar segja feðra­veldið þrífast á þol­endur og bar­áttu­konur brenni út. Það sé gert með því að taka eina fyrir og hlusta ekki á hópinn.

„Feðra­veldið þrífst á því að femín­istar brenni út,“ byrjar Tanja. „Al­gjör­lega,“ segir Bryn­hildur og heldur á­fram. „Feðra­veldið gengur ó­trú­lega langt í því að láta þá sem eru mest frammi brenna sem hraðast út.“

Og hvernig er það gert?

„Til dæmis með því að taka eina fyrir og hlusta ekki á hópinn,“ svarar Helga. „Tanja er ekki for­svars­maður Öfga, við erum hópur og erum jafnar. Við deilum hug­myndum og styðjum hver við aðra og skiptum milli okkar verk­efnum. Þetta er besti sam­vinnu­hópur sem ég hef verið í.“ Og hinar tvær kinka kolli.

Þetta er grunnurinn í Öfgum: Traust og gagn­kvæm virðing. En þær eru ekki alltaf með sömu við­mið.
„Við erum oft mjög ó­sam­mála,“ segir Helga. „En við vinnum ó­trú­lega vel saman vegna þess að við berum svo mikla virðingu fyrir hver annarri.“

Brynhildur og Helga segjast hafa séð ljósið í kjölfar umræðu á Beauty Tips.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Sáu ljósið árið 2015

Tanja segist hafa verið rót­tæk lengi en að sumar í hópnum séu að­eins ný­byrjaðar að skil­greina sig sem femín­ista.
Svo virðist sem þær eigi margar sam­eigin­legt að hafa byrjað að kalla sig femín­ista um 2015 og 2016, þegar konur byrjuðu að deila reynslu­sögum Beauty Tips á Face­book undir myllu­merkinu #þöggun og #konurtala.

Að­dragandi þeirrar bylgju svipar mikið til þeirrar um­ræðu sem á sér stað í dag og spratt fram eftir að ung kona spurði aðrar konur hvort til­tekinn þjóð­þekktur maður hefði brotið á þeim.

Bryn­hildur lýsir því eins og að rofa hafi verið snúið þegar hún á­kvað að kalla sig femín­ista.

„Fólk var alveg búið að kynna hug­myndina fyrir mér en ég ætlaði ekki alveg að hlaupa á þennan vagn og þurfti að­eins að með­taka þetta. Ég áttaði mig bara á því árið 2015 og hugsaði: Kommon, hvað ertu eigin­lega að gera? Ætli þetta hafi ekki verið bara hrein­lega Beauty tips málið? Þegar konurnar fóru að segja sínar sögur. Þegar við áttuðum okkur á því að við máttum gera eitt­hvað,“ segir Bryn­hildur.


„Fyrr­verandi vin­kona mín sagði að nauðgunin sem ég lenti í hefði ekki getað verið nauðgun af því að ég stundaði svo mikið kyn­líf með öðrum eftir­á.“


Tanja og Helga kinka kolli. Svo virðist sem margir hafi séð ljósið í kjöl­far um­ræðunnar. „Ég held bara ef maður stígur einu sinni inn á femínísku brautina þá bakkar maður ekki,“ bætir Bryn­hildur við.

„Svipað hjá mér,“ segir Helga. „Fyrir 2016 kallaði ég mig jafn­réttis­sinna.“

Og hvenær sástu ljósið?

„Senni­lega þegar fyrr­verandi vin­kona mín sagði að nauðgunin sem ég lenti í hefði ekki getað verið nauðgun af því að ég stundaði svo mikið kyn­líf með öðrum eftir­á. Ég skildi ekki hvernig í ó­sköpunum hún gat haldið það. „Jú,“ svaraði ég henni. „Því ég hataði mig svo mikið.“ Mig langaði bara að tala um þetta við ein­hvern en ég fann engan. Ég gat greini­lega ekki talað um þetta við jafn­réttis­sinnuðu vin­konu mína.“

Svona virkar feðra­veldið, geranda­með­virkni og nauðgunar­menning, út­skýrir hún. „Þetta er við­horf sem er myndað í gegnum árin. Börn læra það sem fyrir þeim er haft.“

Tanja segist hafa verið róttæk lengi. Áður en Hanna Björg kynfræðingur kynnti henni fyrir femínisma var hún eiginlega karlremba að eigin sögn.
Mynd: Aðsend

Tanja segir þetta mjög lýsandi fyrir marga femín­ista. „Við verðum femín­istar eftir að brotið er á okkur.“

Bryn­hildur kinkar kolli. „Ég þurfti svo­lítið að melta þetta líka því að ég var ekki til­búin að takast á við öll brotin. Ef ég talaði ekki um þau, hugsaði ekki um þau, þá hafði þetta ekki gerst. Ef ég ætlaði að fara í femíníska bar­áttu þá þurfti ég svo­lítið að líta inn á við. Þess vegna held ég að ég hafi gert grín að femín­istum því ég var ekki til­búin að skoða sjálfa mig.“

Að­spurð segist Tanja þakka Hönnu Björgu Vil­hjálms­dóttur kynja­fræðingi og kennara í Borgar­holts­skóla fyrir að hafa kynnst femín­isma.

„Fyrir það var ég eigin­lega bara karl­remba. En þegar þú setur upp kynja­gleru­augun þá tekur þú þau ekki niður aftur.“

Nafnvernd ekki nafnleysi

Bar­átta kvenna kemur oft í bylgjum, við­brögð við ein­hvers konar á­standi í þjóð­fé­laginu. Síðustu ár hefur skortur á kyn­fræðslu og fjöldi sýknu­dóma í nauðgunar­málum verið mikið til um­ræðu. Traust þol­enda á dóms­kerfinu hefur hrunið.

Að­spurðar hvers vegna þær fundu sig knúna til að stofna Öfga-hópinn segja þær aðal­hug­myndina hafa verið að gera efni á Tik Tok til að reyna að höfða til yngri kyn­slóða.

„Við fengum á­bendingar um að það væri svo mikil fá­fræði inni á Tik Tok. Okkur langaði að hrista upp í fólkinu, koma með femínisku við­horfin til að jafna þetta. Þarna voru bara ungar stelpur fá drulluna yfir sig,“ lýsa þær en það var Hulda Hrund Sig­munds­dóttir sem hóaði saman fólki.

„Þannig hófst þetta sam­starf okkar en svo náttúru­lega fór þetta að­eins lengra,“ segir Helga.
Þar hafa Öfgar birtu um tuttugu nafn­lausar frá­sagnir kvenna um kyn­ferðis­of­beldi. „Tölum um þetta orð nafn­leysi,“ segir Helga.

„Við höfum talað um þetta milli okkar og við viljum bara ekki nota þetta orð lengur. Það er ekkert leysi þarna og það vantar ekki nafn,“ út­skýrir hún. „Þetta er nafn­vernd.“

Þá hafa nokkrir brugðist illa við þessum birtingum og konurnar í Öfg­hópnum fengið líf­láts- og nauðgunar­hótanir.

Einungis 10 prósent kyn­ferðis­brota eru til­kynnt. Af þessum 10 prósentum eru einungis 49 prósent þeirra send til sak­sóknara og 17 prósent kærð og einungis sak­fellt í 13 prósent mála. Það þýðir að ef 100 konum er nauðgað þá ná ekki einu sinni tvær konur fram rétt­læti gegn nauðgara sínum. Þetta kemur fram í skýrslu sem skrifuð var af Hildi Fjólu Antonsdóttur og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur sem gefin var út árið 2013.

Mega konur tala um of­beldi sem þær hafa orðið fyrir? Eiga þær alltaf að kæra?

Það er ljóst er að Öfga-konurnar brenna fyrir þessu. Þær tala hratt og botna hver aðra eins og ein heild.

„Þegar kona kemur fram og deilir sinni sögu þá er henni trúað. En um leið og nafn gerandans er opin­bert, þá er henni ekki trúað. Hún er þá að ljúga og á bara að kæra,“ segir Tanja.

„Allt í góðu, hún kærir og kærunni er vísað frá eins og alltaf, og þá er sagt: Sko hann var sak­laus, þú varst að ljúga.“

Helga skýtur inn í. „Frá­vísun eða að mál sé fellt niður er ekki sak­leysi. Það voru bara ekki nægar sannanir fyrir dóm­stólum. Segjum að gerandinn sé dæmdur, hvað gerist þá? Þá lætur ein­hver safna undir­skriftum til að styðja gerandann og þolandinn þarf að flýja til út­landa.“

Bryn­hildur tekur undir. „Því hann er svo góður strákur og batnandi mönnum er að besta að lifa, þó hann iðrist einskis.“
„Við viljum að þol­endur fái pláss í um­ræðunni. Gefa þeim rödd,“ segir Tanja að lokum.

Önnur bylgja af #MeToo hófst í maí 2021.
Mynd/Forsætisráðuneytið

„Að taka eina konu fyrir þegar hópurinn öskrar, til að láta hana brenna út, til að láta þær brenna út, eina í einu. Það er þöggun.“


Trúa á skrímslið í stað þess að líta inn á við

En hvað með gagn­rýnis­raddir sem segja þetta ein­fald­lega dóm­stól götunnar og hluta af svo­kölluðum „cancel-kúltúr“.

„Það er ekkert mál að „cancel-a“ konu sem stígur eitt eða tvö feil­spor. Mér sýnist þol­endur vera að upp­lifa meira af cancel-kúltúr heldur en ger­endur. Oft segja menn: sak­laus uns sekt er sönnuð“ um meinta ger­endur. Hvers vegna gildir það ekki um þol­endur? Af hverju gera svona margir ráð fyrir að konur ljúgi?“ segir Tanja.

„Það eru á­kveðnir ein­staklingar sem trúa allri skrímsla­væðingu,“ segir Helga. „En þeir geta ekki horft inn á við. Ef mennirnir eru ekki hrein­lega skrímsli þá gætu þeir ekki hafa gert neitt slæmt. Menn trúa þessu í þess að horfa inn á við.“

„Ein­mitt,“ segir Bryn­hildur. „Ef það er ekki nafn bak við sögur kvenna er alltaf talað um gerandann sem skrímsli. En um leið og ein­hver er opin­beraður sem gerandi þá er það allt í einu mikið ó­rétt­læti að ein­hver sé að bera upp á aðra. Fólk þarf svo inni­lega á því að halda að trúa því að það sé skrímsli bak við slæma hluti.“

Ætla aldrei að halda kjafti

Ljóst er að um­ræður síðustu vikna hafi rifið upp gömul sár þol­enda kyn­ferðis­of­beldis. Öfgar segja sam­fé­lagið krefjast þess að konur beri sárin.

„Við erum að endur­taka það sem hefur komið fram í öllum síðustu byltingum. Þol­endur þurfa að ber­skjalda sig aftur og aftur fyrir þessa um­ræðu, upp­lifa á­falla­streitu­röskun, rífa upp dýpstu sárin bara til þess að fá ein­hver við­brögð,“ segir Tanja.

„En konur mega ekki opna sig um of­beldi, þær þurfa að kæra. En svo mega þær ekki opna sig um of­beldið jafn­vel þegar þær kæra. Þetta er svo mikil þöggun. Að taka eina konu fyrir þegar hópurinn öskrar, til að láta hana brenna út, til að láta þær brenna út, eina í einu. Það er þöggun,“ segir Helga.

Þegar kerfið bregst, hvert geta þá þol­endur leitað?

„Ég á mína reynslu og mínar sögur. Ef það er brotið á mér þá er enginn að fara að stoppa mig að vara aðra við og segja mína sögu. Ég ætla aldrei að halda kjafti.“

Benda þær á að konur hafi lengi reitt sig á svo­kallað hvísl-kerfi til þess að fá á­heyrn og stuðning þegar sam­fé­lagið tekur ekki mark á þeim eða hafnar þeim.

Hvers vegna trúir fólk ekki konum?

Bryn­hildur tekur boltann. „Á­stæðan fyrir að þol­endum er ekki trúað þessi rót­gróna kven­fyrir­litning, það bara þannig. Stærsti hluti þeirra sem verða fyrir kyn­ferðis­of­beldi eru konur. Ef dæminu væri snúið við og lang­flestir þol­endur væru karl­menn er ég alveg hand­viss um að það væri miklu meiri virðing borin fyrir þol­endum og þeim miklu frekar trúað.“

Helga bætir við. „Og konur myndu sýna sam­stöðu með þeim. Tökum sem dæmi her­ferðina Allir gráta. Engin kona setti at­huga­semd við her­ferðina eins og: „Konur gráta líka.“ Ekki einni einustu konu myndi detta í hug að fara að smána slíka her­ferð. Þeir eiga rétt á þessu plássi.“

„Og gleymum ekki að á­stæðan fyrir því að karlmenn geta byrjað að opna sig er feminísmanum að þakka,“ byrjar Tanja. „Þetta er pláss sem þeir eiga. Engri konu myndi detta í hug að taka það af þeim.“

Þau sem lesa mikið af fréttum á sam­fé­lags­miðlum hafa ef­laust tekið eftir því flóði at­huga­semda sem birtast gjarnan við fréttir um ýmis vanda­mál kvenna. Segjast Öfga-konur hafa séð þetta marg­oft.

„Við tókum eftir þessu á TikTok,“ svarar Helga. „Við byrjuðum á að birta mynd­bönd þar sem við sögðum bara nöfnin okkar og að við værum Öfgar og að við værum femín­istar og þá sprakk kommenta­kerfið: Ætlið þið bara að tala um konur? Ætlið þið ekki að tala um karla? Þá voru sumir búnir að á­kveða að við ætluðum aldrei að ræða mál karla, eins og við æltuðum bara að tala um hvað konur ættu bágt.“

„Og við megum það alveg,“ segir Tanja. „Þetta er okkar bar­átta og við megum gera það sem við viljum enda hallar á konur. Fólk er svo hrætt við for­rétindi sín að það heldur að við séum að taka eitt­hvað frá þeim.“

„Og margir að spyrja okkur hvers vegna það er ekki karl­maður í hópnum okkar,“ segir Bryn­hildur. „Eins og það væri ekki hægt að taka mark á okkur ef við erum kvenna­hópur.“

Segja þær feðra­veldið ekki bara skaða konur heldur alla. Skýrt dæmi um af­leiðingar feðra­veldisins á karl­menn sé þegar karl­menn opna sig um kyn­ferðis­of­beldi.

„Þá mæta ein­hverjir ein­staklingar í kommenta­kerfið og segja: Já, þið eruð bara heppnir að konur séu að sýna ykkur at­hygli. Gott að fá sér að ríða. Maður kvartar nú ekki fyrir svona, bara þakka fyrir at­hyglina,“ segir Bryn­hildur. „Þetta er sömu mennirnir og eru að þagga niður í konunum. Sömu mennirnir sem segja að konur séu konum verstar.“

Um tíu konur er hluti af Öfga-hópnum.
Athugasemdir