Töluverð örtröð var við Seljalandsfoss um helgina. Nýttu margir ferðalangar sér veitingasölu og fatabúð í eigu tveggja íslenskra vinapara í héraðinu við fossinn.

Engin þjónusta var við fossinn fyrir 2014. Nú hefur nokkur fjöldi manns atvinnu af því að þjónusta ferðafólk við Seljalandsfoss en þar eru innheimt bílastæðagjöld. Sala á lopapeysum sem eru prjónaðar í héraðinu og margs konar veitingar skora hátt að sögn starfsmanna auk þess sem aðstaða er til að fara á snyrtingu.

Stefán Karl Arnarsson hjá Seljaveitingum sem var að störfum þegar blaðamann Fréttablaðsins bar að garði, sagði að Bandaríkjamenn og Bretar væru áberandi þessa dagana.

„Annars er þetta bland í poka. Menn koma víða að,“ segir Stefán og nefnir meðal annars ferðalanga frá Asíu.

Spáð er átta milljónum erlendra ferðamanna hingað til lands næsta ár. Dreifast þeir á alla mánuði ársins, ólíkt því sem var. Hefði þótt langsótt ekki alls fyrir löngu að sjá fyrir sér blómstrandi rekstur allt árið, hvað þá annríki líkt og í desemberblíðunni um helgina.