Leikkonan og nú rithöfundurinn Sigurbjörg Alma Ingólfsdóttir, einnig þekkt sem Siddy Holloway, gefur út bókina Hidden London: Discovering the Forgotten Underground í Bretlandi. Íslendingar þekkja Siddy frá því að hún varð barnastjarna aðeins 11 ára gömul þegar hún lék titilhlutverkið í söngleikja-kvikmyndinni Regínu.

„Sum undirgöng voru breytt í skrifstofur fyrir ríkisstjórnina og voru höfuðstöðvar í seinni heimsstyrjöldinni. Mörg önnur göng voru leyni-geymslur fyrir stærstu söfn Bretlands til að vernda munina gegn sprengingum.“

Leiklist og leiðsögn um lokaðar neðanjarðarlestarstöðvar

Síðan þá hefur Siddy unnið sem leikari í London og tekið við sem stjórnandi og skipuleggjandi Hidden London túranna þar sem ferðamenn geta skoðað dýpstu leyndarmál höfuðborgar Bretlands í hundrað ára gömlum lokuðum neðanjarðarlestarstöðvum.

Siddy hefur unnið fyrir Samgöngusafn London í Covent Garden (e. London Transport Museum) í fjögur ár og byrjaði að skrifa bókina í fyrra ásamt meðhöfundum David Bownes, Chris Nix og Sam Mullins. Þetta er fyrsta bókin sem Siddy skrifar og er það Yale University Press, ein stærsta bókaútgáfa heims, sem gefur út bókina.

Siddy í neðanjarðar leynigöngum í London.
London Transport Museum

Afhjúpar leyndarmál frá síðari heimsstyrjöldinni

„Bókin fjallar um lokaðar stöðvar í neðanjarðarkerfi London og það sem gerðist fyrir og eftir að þær lokuðu og hvaða tilgangi þær hafa þjónað og þjóna í dag,“ segir Siddy í samtali við Fréttablaðið. Hún segir bókina vera skreytta einstökum ljósmyndum og sé stútfull af sögum sem hafa aldrei áður litið dagsins ljós. „Fullkomin bók fyrir sófaborðið,“ segir Siddy en ásamt því að skrifa bókina var hún einnig listrænn stjórnandi ljósmyndanna.

„Fólk áttar sig ekki á að bak við eina hurð gæti leynst hálf stöð sem hefur verið lokuð síðan 1925.“

Mikið af efninu sem er notað í bókinni er tekið beint frá ríkisleyndarmálum sem voru nýlega afhjúpuð eftir að 70 ár skjalaleynd var aflétt. Meðal stöðvanna sem er skoðaðar í túrnum hjá Siddy eru Down Street í Mayfair, Aldwych, Clapham South neðanjarðarbyrgið, Euston, Highgate, 55 Broadway, Charing Cross og Piccadilly Circus. Ekki er hægt að skoða elstu stöðina hjá King William Street sem lokaði 1900. Hún er ekki mjög stöðug að sögn Siddyjar og er aðeins einn inngangur.

Meðal annars er hægt er að skoða lokuðu neðanjarðarlestarstöðvarnar hjá Down Street í Mayfair og Charing Cross í Hidden London túrnum ásamt Clapham South neðanjarðarbyrginu.
London Transport Museum

„Það eru magnaðar sögur bak við elsta neðanjarðarlestarkerfi heimsins. Sum undirgöng voru breytt í skrifstofur fyrir ríkisstjórnina og voru höfuðstöðvar í seinni heimsstyrjöldinni. Mörg önnur göng voru leyni-geymslur fyrir stærstu söfn Bretlands til að vernda munina gegn sprengingum,“ segir Siddy í samtali við Fréttablaðið.

„Það eru ótrúlega mörg leynisvæði í neðanjarðarkerfinu í London sem fólk gengur fram hjá á hverjum degi. Fólk áttar sig ekki á að bak við eina hurð gæti leynst hálf stöð sem hefur verið lokuð síðan 1925,“ segir Siddy en bókin kemur út í September næstkomandi. Á sama tíma verður hátíð á samgöngusafninu þar sem bókin verður kynnt.