Upptökur úr eftirlitsmyndavélum víða um Reykjavík sýna ferðir hinna ákærðu í Rauðagerðismálinu svokallaða daginn sem Armando Beqirai var myrtur. Samkvæmt upptökunum sem voru sýndar fyrir dómi í dag er áætlað að atburðarásin, þar sem Armando var skotinn til bana, hafi hafist í kringum 23:56 þann 13. febrúar.

Annar dagur aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í dag var sjónum beint að rannsókn málsins og meðal annars rætt við lögregluþjóna, sérfræðinga frá tæknideild lögreglu og réttarmeinafræðing sem og ekkju Armando, bróður hennar og manninn sem kom fyrst að Armando eftir að hann var skotinn.

Fjögur er ákærð fyrir manndráp eða aðild að manndrápi; Angjelin Sterkaj, albanskur karlmaður, er sakaður um að hafa skotið Armando til bana og hefur hann játað en borið fyrir sig sjálfsvörn. Claudia Sofia Coelho Carvalho, unnusta Angjelo, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi eru ákærð fyrir samverknað en þau neituðu öll sök í gær.

Hægt er að lesa allt um dómsmálið hér.

Hin ákærðu ásamt verjendum sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Eftir hádegi var myndbandsupptaka spiluð í dómsal sem sýndi ferðir hinna ákærðu þennan örlagaríka dag. Almar Þór Ingason var sá sem setti saman myndefni fyrir lögregluna upp úr upptökum sem hann fékk úr myndavélakerfum og atvikaskrá lögreglu. Einnig notast hann á við upplýsingar úr símakerfum til að púsla saman tímalínu. Útskýrði hann að tímasetningarnar væru nákvæmar.

 • Klukkan 23:15 laugardagskvöldið 13. febrúar sést Murat í bíl fyrir utan Brautarholt 4 en hann hafði verið stöðvaður af lögreglu skömmu áður. Murat virðist fara inn í hús og sést svo leggja af stað að Rauðarárstíg.
 • Murat bíður við umferðarljós og virðist vera upptekinn í símanum og tekur ekki eftir því þegar ljósið verður grænt en samkvæmt símagögnum hringdi hann í Claudiu klukkan 23:32 og talar við hana í tvær mínútur og 20 sekúndur.
 • Um svipað leyti og símtal Murat og Claudiu á sér stað sjást Shpetim og Angjelin yfirgefa Brautarholt 4 og fara út í bíl.
 • Bíll Claudiu sést fara frá Stórholti og að Rauðarárstíg fram hjá Downtown Apartments klukkan 23:39.
 • Shpetim og Angjelin sjást við Sogaveg klukkan 23:44.
 • Armando kemur út á Rauðarárstíg frá Reykjavík Downtown apartments 23:44.
 • Klukkan 23:45 sendir Claudia skilaboðin: „Hey sexý“ sem talið er vera merki um að Armando væri á leiðinni heim til sín. Upptökur sýna að á þessum tíma hafi bæði Shpetim og Angjelin verið í grennd við Rauðagerði.
 • Myndbandsupptaka í Rauðagerði sem sýnir endurspeglun af gluggum FÍH staðsetur Armando fyrir utan heimili sitt klukkan 23:51. Ljós kemur á hreyfiskynjara fyrir utan bílskúrshurðina.
 • Skömmu síðar kemur bíll Shpetim og Angjelin og ljós kviknar og slökknar klukkan 23:55
 • Ljós kviknar og slökknar aftur klukkan 23:56 og var því líklega hreyfing fyrir utan bílskúrinn.
 • Shpetim og Angjelin keyra burt 23:57 frá Sogavegi / Borgargerði.