Skólastarf hefur farið fram með eðlilegum hætti í Laugalækjarskóla í dag eftir að eldur kom upp í skólanum í nótt. Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað til vegna brunans og var slökkvistarfi lokið á fimmta tímanum í nótt. Málið er til rannsóknar lögreglu og grunur er um íkveikju. 

Sólveig Hrafnsdóttir, aðstoðarskólastjóri Laugalækjarskóla, vaknaði upp í nótt við símtal frá Öryggismiðstöðinni vegna brunans. Hún segir skólastarf hafa farið fram með nokkuð eðlilegum hætti, helst til vegna þess að eldurinn fór ekki inn í húsið sjálft og var reykurinn bundinn við bókasafn skólans sem var reykhreinsað í nótt.

„Það er náttúrulega brunalykt í húsinu en við gátum haldið kennslu með eðlilegum hætti þar sem lyktin er helst bundin við skrifstofuálmuna,“ segir Sólveig. Bókasafninu hefur lokað tímabundið, sem og upplýsingamiðstöð skólans.

Sjá einnig: Líklega íkveikja í Laugalækjarskóla

Sólveig segir skemmdir vera verulegar utan á húsinu, en erfitt sé að segja til um umfang tjónsins að svo stöddu. Tryggingarfélag skólans mætti á vettvang í morgun til þess að meta skemmdirnar. 

Sem fyrr segir rannsakar lögregla málið vegna gruns um íkveikju. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu kviknaði eldurinn í klæðningu utan á skólanum og er því nær víst að um íkveikju hafi verið að ræða.

Sólveig segir að upptökum úr myndavélum við skólann hafi verið komið í hendur lögreglu, en að öðru leyti hefur hún ekki upplýsingar um stöðu mála. „Svo verður lögreglan bara að rannsaka málið.“

Sjá einnig: Búið að slökkva eldinn í klæðningu Laugalækjarskóla

Aðspurð segir hún enn vera sterka lykt á göngum skólans og erfitt sé að segja til um hvenær hægt verði að opna þá hluta skólans sem lokað var vegna brunans. „Vonandi bara sem fyrst, við verðum bara að sjá til.“