Mikill hiti færðist í umræðu á borgarstjórnarfundi í kvöld þegar Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sakaði Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um spillingu.

Eyþór sagði ummæli Dóru vera haldlausa samsæriskenningu.

Undir dagskrárliðnum Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um hagkvæmt húsnæði fyrir almennan markað kom Dóra inn á eignarhlut Eyþórs í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, og tengdi við uppbyggingu á Selfossi.

Ýjaði að því að Samherji hafi haft áhrif á störf Eyþórs á Selfossi

„Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, áður oddviti flokksins á Selfossi, virðist hafa fengið fleiri hundruð milljóna að gjöf frá Samherja, í gengum fyrirtæki sem notað hefur verið sem mútufélag. Ég hef ítrekað spurt um ástæður þess án fullnægjandi svara,“ sagði Dóra.

„Nú hefur komið í ljós að Samherji stendur að baki uppbyggingu á miðbænum á Selfossi, sem Eyþór Arnalds hefur um árabil verið dyggur talsmaður fyrir, sem hann hampaði á fundinum nú rétt í þessu. Þarna getur verið komin ein ástæða þess að Samherji gaf Eyþóri Arnalds borgarfulltrúa svo stóra gjöf, sem hlutur hans í Morgunblaðinu er.“

Selfoss var meðal annars til umræðu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í kvöld.
Fréttablaðið/Pjetur

Hlé gert á fundi að beiðni minnihlutans

Nokkur læti voru í salnum á meðan Dóra fór með mál sitt og var hún meðal annars gagnrýnd af fulltrúum minnihlutans fyrir að fara út fyrir dagskrá fundarins. Þá krafðist Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, að hlé yrði gert á fundi borgarstjórnar og varð forseti við því.

Eftir hlé hóf Dóra Björt mál sitt á ný eftir að Sabine Leskopf, forseti borgarstjórnar, beindi því til hennar að sýna fram á að ræðan tengdist því máli sem var á dagskrá. Því svaraði Dóra með því að segja að Eyþór hafi sjálfur minnst á uppbyggingu miðbæjar Selfoss fyrr á fundinum og að ræða hennar myndi að endingu leiða að því máli sem var þá til umræðu.

Segist hafa verið farinn úr bæjarstjórn

Í andsvari sínu sagði Eyþór að Dóra færi þarna með dylgjur og að tillögur um nýjan miðbæ Selfoss hafi verið samþykktar í íbúakosningu fjórum árum eftir að hann hætti þar í bæjarstjórn.

„Borgarfulltrúinn Dóra Björt er dálítið upptekin af því að ráðast á aðila. [...] Hér dylgjar hún algjörlega út í loftið og verður sjálfri sér til minnkunar um miðbæ Selfoss og greiðslur og fleira sem er ekki bara henni til vansæmdar heldur öllum í salnum.“

Þá sagði hann að í kjölfar íbúakosningarinnar hafi byggingarleyfi verið gefin út fyrir nýja miðbæinn af bæjarstjórn sem hvorki hann né Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt sæti í.

„Það er betra að búa til samsæriskenningar sem geta mögulega fræðilega staðist,“ bætti Eyþór við.

Mikið hefur gengið á í borgarstjórn.

Sakaði Dóru um hatursorðræðu

Síðar greip Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, orðið og sakaði Dóru um hatursorðræðu.

„Virðulegi forseti, ágæta borgarstjórn sem ég tel að sé nú ekki orðin mjög virðuleg lengur eftir síðasta útspil borgarfulltrúans, Dóru Björt. Þetta er hreint með ólíkindum, við erum að ræða hér hagstætt húsnæði fyrir ungt fólk og hér er tillaga um að það verði farið í hraða uppbyggingu í Örfirisey og Keldnalandinu og þá bara brestur þetta ógeð á. Hvernig í ósköpunum eigum við 22 borgarfulltúrar að sitja undir þessum ærumeiðingum?“

Málið tekið fyrir á fundi forsætisnefndar

Í samtali við Fréttablaðið segir Dóra Björt að minnihlutinn hafi farið fram á að orð sín yrðu rædd á fundi forsætisnefndar og að forseti borgarstjórnar hafi orðið við því að setja málið þar á dagskrá. Hún segist engu nær um tengsl Eyþórs og Samherja þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir og að hann hafi farið um víðan völl í andsvörum sínum.

Í ræðu sinni vísaði Dóra til umfjöllunar Stundarinnar þar sem greint var frá því að Kristján Vil­helms­son, út­gerð­ar­mað­ur í Sam­herja, væri stærsti hluthafi nýja miðbæjarins sem sé nú í uppbyggingu á Selfossi. Segir Dóra að aðalskipulag miðbæjarins sé frá árinu 2012, þegar Eyþór var þar oddviti Sjálfstæðisflokksins.

„Þetta snýst um að það er eðlilegt að kjörinn fulltrúi sem fer ekki bara með skipulagsvaldið heldur líka almannafé svari því hvort hann sé í vasanum á stórum hagsmunaaðila í okkar samfélagi.“

Hafnar því að hafa gengið út af fundi

„Það var uppistand þegar fulltrúi Pírata opinberaði samsæriskenningar sínar sem ekki stóðust einfaldasta gúgl, mörgum hafi nú þótt þetta mjög vandræðalegt,“ segir Eyþór í samtali við Fréttablaðið.

„Borgarfulltrúinn Dóra Björt fór þarna dálítið út fyrir umræðuna og fór að væna menn um eitthvað sem stenst ekki skoðun.“

Þá hafnaði hann því alfarið að fulltrúar minnihlutans hafi gengið út af fundi borgarstjórnar í kjölfar málflutnings Dóru líkt og Ragna Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar gaf til kynna á Twitter.

„Neineinei, það eru allir á fundinum. Það var bara matarhlé og umræðan er enn þá í gangi. Þetta er bara vitleysa. Þetta er eitthvað fake news held ég.“

Tillaga Sjálfstæðisflokks um skipulagningu hagkvæms húsnæðis á Keldum og í Örfirisey sem var til umræðu á meðan áðurnefnd átök áttu sér stað var síðar felld.