Kveikt hefur verið í fjölda lögreglubíla í miðborg Örebro í uppþotum sem brutust út í aðdraganda viðburðar sem sænsk-danski hægriöfgamaðurinn Rasmus Paludan ætlaði að halda í Sveaparken í borginni. Átta lögreglumenn og einn óbreyttur borgari hafa særst í uppþotunum.

Aðdragandi átakanna var sá að Paludan, sem er leiðtogi dönsku öfgahægrihreyfingarinnar Harðlínunnar (d. Stram kurs) hugðist halda samkomu þar sem eintak af Kóraninum yrði brennt á almannafæri. Upphaflega stóð til að halda viðburðinn í Linköping, í hverfinu Skäggetorp, þar sem rúmlega helmingur íbúanna er af erlendum uppruna. Paludan hafði fengið leyfi lögreglu til að halda gjörninginn þar, en neyddist til að hætta við hann eftir að mótmælendur söfnuðust saman á staðnum og lentu í átökum við lögreglu. Í átökunum var steinum kastað í lögreglumenn og voru þrír þeirra fluttir á sjúkrahús.

Paludan hefur áður staðið fyrir svipuðum gjörningum. Árið 2019 vafði hann eintaki af Kóraninum í lengju af beikoni og henti því upp í loftið. Gjörningar Paludans hafa áður leitt til þess að honum hefur verið bannað að koma til Svíþjóðar, auk þess sem honum var um skeið meinað að koma til Þýskalands.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, fordæmdi ofbeldið gegn lögreglumönnum og almennum borgurum í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld. Sagði hún lögreglumennina hafa slasast við þá vinnu sína að verja lýðræðisleg réttindi og að nokkrar handtökur hefðu þegar farið fram vegna ofbeldisins. „Í Svíþjóð fær maður að tjá skoðanir sínar, smekklegar eða ósmekklegar, það er hluti af lýðræðinu okkar. Hvað sem manni kann að finnast á maður aldrei að grípa til ofbeldis. Það munum við aldrei líða.“

Andersson gagnrýndi þó einnig gjörning Paludans í færslunni og sagði hann dæmi um ögrun hægriöfgamanna. „Svona ofbeldisviðbrögð voru nákvæmlega það sem hann vildi sjá. Tilgangurinn var einmitt sá að egna fólk hvert gegn öðru. Það getur verið freistandi að bíta á þannig agn. En Svíþjóð getur gert betur.“