Persónuvernd sér ekki tilefni til þess að sekta Báru Halldórsdóttur vegna upptöku hennar á samtali Miðflokksmanna á Klaustri bar í nóvember þótt upptakan hafi farið í bága við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Báru er hins vegar gert að eyða upptökunni og senda Persónuvernd staðfestingu á því að það hafi verið gert. Þetta segir í úrskurði Persónuverndar um málið.

Með tilliti til lengdar upptökunnar kemst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að hún hafi falið í sér rafræna vöktun. Það brjóti í bága við lög um persónuvernd þar sem gefa þarf merki eða gera viðvart um vöktun og ábyrgðaraðila hennar á áberandi hátt þegar slík vöktun er stunduð á almannafæri.

Að mati Persónuverndar ber þó að líta til þeirra skýringa Báru að „hún hafi tekið umræddar samræður upp þar sem hún hafi talið ummæli í þeim hafa þýðingu í ljósi stöðu þátttakenda“ og að hún hafi verið á Klaustri fyrir tilviljun. Einnig er litið til þeirrar umræðu sem varð í samfélaginu „um háttsemi þjóðkjörinna fulltrúa“.

Þá segir í úrskurðinum að rannsókn málsins hafi ekki leitt í ljós nokkurn samverknað „sem væri til þess fallinn að hafa íþyngjandi áhrif, né heldur skapað forsendur til að taka afstöðu af eða á til réttmætis áðurnefndra skýringa“.

„Þegar litið er til alls framangreinds, einkum tilgangs vinnslunnar og kringumstæðna að öðru leyti, eru ekki efni að mati Persónuverndar til að leggja á sekt,“ segir aukinheldur í úrskurði Persónuverndar.