Undanfarna daga hefur Framsóknarmönnum orðið tíðrætt um uppstokkun á málefnasviðum ráðuneyta og tilfærslu málaflokka milli þeirra. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, segir að slík uppstokkun komi örugglega til tals í viðræðum stjórnarflokkanna um áframhaldandi samstarf.

„Jú, við höfum lagt áherslu á að stokka upp ráðuneyti, einmitt vegna þeirra áherslna sem árið 2021 kallar á. Síðasta breyting var í kringum 2010 til 2011, af stjórn sem stefndi með samfélagið inn í Evrópusambandið og var að byggja upp stjórnkerfi fyrir það. Við erum ekki að fara þangað, og er þá ekki eðlilegt að við stöldrum núna við með þá reynslu sem við höfum frá síðustu fjórum og sjáum hvernig einhver breyting á því myndi gagnast samfélaginu betur?“ spyr Sigurður Ingi.

Hann segir breytingar á ráðuneytum alls ekki sér­íslenska framkvæmd. Mun lengra sé gengið í slíkum breytingum í Danmörku, eftir þörfum samfélagsins á hverjum tíma og áherslum hverrar ríkisstjórnar. „Þannig að þetta er klárlega eitthvað sem við ræðum, en þetta er alls ekki séríslenskt fyrirbrigði, heldur miklu frekar Norðurlandamódelið um hvernig við vinnum.“

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, tekur undir að svona uppstokkun sé ekki sér­íslensk.

„En við erum ansi gjörn á að breyta stjórnarráðinu svo að það henti pólitískum samsetningum,“ bætir hann við. Slík framkvæmd sé alvanaleg hér, ýmist stofnun nýrra ráðuneyta eða sameining ráðuneyta til að auka vægi þeirra.

Um viðræðugrundvöll flokkanna og verkaskiptingu bendir Eiríkur á að fjölflokkastjórnir þurfi gjarnan fleiri stóla og nú þurfi Framsóknarflokkurinn væntanlega að fá eitthvað fyrir kosningasigurinn.

„Ég geri ráð fyrir að það verði tilfærsla í áhrifum og virðingarstöðu frá Vinstri grænum yfir til Framsóknar. En það eru ýmsar leiðir til þess,“ segir Eiríkur.

„Framsóknarmenn munu líkast til vilja upphefja sinn formann meira í ríkisstjórninni. Það eru ýmsir möguleikar í boði til þess og hægt að setja alls konar embætti í skrautpappír.“

Lengi vel hafi forsætis-, fjármála- og utanríkisráðuneytin verið talin veigamest. Utanríkisráðuneytið sé augljós kostur fyrir Framsókn en í seinni tíð hafi menn hins vegar séð vankanta á því að formenn flokka séu í utanríkisráðuneytinu vegna tíðrar fjarveru. Annar vandi Framsóknar við þessa ráðstöfun væri að varaformaður flokksins sé betri kandídat í utanríkismálin en formaðurinn.

Fái Framsókn hins vegar utanríkismálin gætu Vinstri græn þurft að gefa heilbrigðismálin eftir til Sjálfstæðisflokksins og Guðlaugs Þórs.

„Fyrir Vinstri græn skiptir eflaust mestu máli að vera í forystu. Forsvarsmenn flokksins átta sig samt líkast til á því að niðurstöður kosninganna feli í sér aukið vægi Framsóknar,“ segir Eiríkur.

Fréttablaðið ræddi við nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins um viðræðurnar. Þeir leggja áherslu á að viðræðurnar séu á byrjunarstigi og beint liggi við að flokkarnir tali saman í ljósi niðurstöðu kosninganna. Aðspurðir um málefni og verkaskiptingu nefna þeir ekki síður málaflokka sem oftar hafa verið kenndir við vinstriflokkana, eins og umhverfismál, félagsmál og heilbrigðismál.

Þá gefa samtöl við Sjálfstæðismenn til kynna að þolinmæði fyrir miklum málamiðlunum fari þverrandi, í ljósi styrks flokksins umfram aðra flokka í mörgum síðustu kosningum. Þótt ábyrgð gagnvart landi og þjóð sé alltaf forgangsmál númer eitt hafi sú hugsun hvarflað að mörgum að ef til vill sé flokknum sjálfum hollt að vera í stjórnarandstöðu eitt kjörtímabil.