Ágúst Ólafur Ágústs­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, verður ekki í þingsæti á lista Samfylkingarinnar í næstu Al­þingis­kosningum. Hann bauð upp­stillingar­nefndinni sátta­til­lögu sem fælist í því að hann færi úr odd­vita­sætinu í sínu kjör­dæmi en henni var hafnað. Í færslu á facebook segist hann stoltur af sínum stjórnmálaferli þó niðurstaða nefndarinnar sé vissulega vonbrigði.

„Sam­fylkingunni hefur gengið mjög vel á kjör­tíma­bilinu, ekki síst í Reykja­vík. Við höfum staðið í upp­byggingar­starfi hjá flokknum og höfum rekið mál­efna­lega en að­halds­ríka stjórnar­and­stöðu á erfiðum tímum. Ég hef tekið virkan þátt í því starfi og tel mig hafa verið mikil­vægan þing­mann fyrir flokkinn á þessu kjör­tíma­bili. Það er því virki­lega dapur­legt fyrir mig að meiri­hluti upp­stillingar­nefndar telji ekki rétt að ég verði í lík­legu þing­sæti fyrir næstu kosningar,“ skrifar Ágúst.

Að hans mati má gagnrýna ýmislegt varðandi aðferð uppstillingarnefndarinnar en hann segist um leið virða rétt nefndarinnar til þess að taka þessa ákvörðun.

Niðurstaðan vonbrigði en horfir stoltur til baka

„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi í mínum störfum á Al­þingi og ég tel mig hafa átt þátt í þeirri vel­gengni sem flokkurinn hefur notið. Sam­fylkingin hefur verið að mælast stærsti stjórn­mála­flokkurinn í því kjör­dæmi sem ég leiði,“ segir í færslur Ágústar.

Hann segir það mikil vonbrigði að uppstillingarnefndin hafi hafnað tillögu hans en um leið er hann stoltur af sínum stjórnmálaferli.

„Ég bauð upp­stillingar­nefnd flokksins sátta­til­lögu sem fælist í því að ég færi úr odd­vita­sætinu í kjör­dæminu í nafni ný­liðunar og tæki annað sætið. Þeirri til­lögu var hafnað af meiri­hluta upp­stillingar­nefndar. Þessi niður­staða er mér vissu­lega von­brigði en ég horfi stoltur til baka yfir feril minn í stjórn­málum og er ég mjög þakk­látur fyrir að hafa fengið tæki­færi til að vinna að betra sam­fé­lagi,“ segir í lok færslunnar.

Samfylkingunni hefur gengið mjög vel á kjörtímabilinu, ekki síst í Reykjavík. Við höfum staðið í uppbyggingarstarfi hjá...

Posted by Ágúst Ólafur Ágústsson on Miðvikudagur, 20. janúar 2021