Viðar Þor­steins­son hjá Eflingu – stéttar­fé­lagi segir að helstu hlut­hafar í Icelandair hljóti að standa frammi fyrir á­leitnum spurningum vegna upp­sagnar trúnaðar­manns hlað­manna á Reykja­víkur­flug­velli, Ólafar Helgu Adolfs­dóttur. Fjár­festar séu bundnir af skuld­bindingum um sam­fé­lags­á­byrgð sem þeir hafi sjálfir gefið út.

Viðar Þor­steins­son hjá Eflingu.

„Við höfum lagst í skoðun á þessu og það er ljóst að allir stærstu fjár­festar Icelandair eru bundnir af við­miðum um sam­fé­lags­lega á­byrgar fjár­festingar. Það á bæði við Bain Capi­tal, stærsta eig­andann, sem og líf­eyris­sjóðina og Arion banka sem eiga stærstu hlutina í Icelandair hér innan­lands,“ segir Viðar.

Að sögn Viðars gæti brot af þeirri al­var­leika­gráðu sem hann segir verið að fremja á Ólöfu virkjað á­kvæði í reglum um á­byrgar fjár­festingar.

Það er í kortunum að þessir hlut­hafar gætu þurft að selja hlut sinn.

„Það er í kortunum að þessir hlut­hafar gætu þurft að selja hlut sinn í Icelandair ef fyrir­tækið verður dæmt brot­legt í Fé­lags­dómi, sem er nánast öruggt,“ segir Viðar.

Sem dæmi segir í stefnu um á­byrgar fjár­festingar hjá líf­eyris­sjóðnum Gildi að tengist fyrir­tæki skráð á inn­lendan markað broti á sviði um­hverfis­mála og fé­lags­legra mál­efna sé mark­mið sjóðsins að beita sér sem eig­andi fyrir því að látið verði af því broti.

„Ef slíkar að­gerðir bera ekki full­nægjandi árangur mun sjóðurinn taka til skoðunar sölu við­komandi eignar­hlutar í heild eða að hluta,“ segir hjá Gildi.

Viðar full­yrðir að ó­lög­leg upp­sögn trúnaðar­manns myndi aug­ljós­lega alltaf falla undir „brot á sviði fé­lags­legra mál­efna“ í skilningi stefnu Gildis. Sams konar klausur séu í stefnum annarra líf­eyris­sjóða sem eiga hluti í Icelandair, til dæmis Brúar líf­eyris­sjóðs og LSR.

Flug­freyjur og flug­men styðja Eflingu

Flug­freyjur í Flug­freyju­fé­lagi Ís­lands (FFÍ) og Fé­lag ís­lenskra at­vinnu­flug­manna (FÍA) bættust í gær í hóp þeirra sem styðja Eflingu í að upp­sögn Ólafar verði aftur­kölluð.

Áður höfðu flug­virkjar á­lyktað um sama mál.

„Með þessari fram­göngu telur FFÍ að Icelandair sé að gera al­var­lega at­lögu að upp­sagnar­vernd trúnaðar­manna á vinnu­stöðum,“ segir í yfir­lýsingu flug­freyja og flug­menn eru ekki síður harð­orðir og lýsa fullum stuðningi við Eflingu í málinu.

„FÍA for­dæmir því þessar að­gerðir Icelandair, sem jafn­framt eru studdar af SA [Sam­tökum at­vinnu­lífsins] og skorar um leið á Icelandair að draga upp­sögnina til baka,“ segir í yfir­lýsingu flug­mannanna.

Frétta­blaðið sendi Boga Nils Boga­syni, for­stjóra Icelandair, fyrir­spurn í þremur liðum en fékk ekki svör.

Upp­lýsinga­full­trúi Icelandair segir í skrif­legu svari að fé­lagið hafi engu að bæta við yfir­lýsingu sem send var Frétta­blaðinu í vikunni. Þar var harmað að málið hefði farið í fjöl­miðla og sagt að vafi léki á að Ólöf hefði verið trúnaðar­maður er henni var sagt upp.

Engin svör hafa fengist hjá Boga Nils Boga­syni, for­stjóra Icelandair, vegna málsins sem skekur fyrir­tækið þessa dagana.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson