"Ég ætla ekki að komm­ent­era á það,“ segir María Heimisdóttir, spurð hvort hún muni hætta við að hætta ef fjárveitingar verða auknar til Sjúkratrygginga Íslands.

Heimildir Fréttablaðsins herma að uppsögn Maríu sem forstjóra Sjúkratrygginga sé endanleg. Þótt fjárveitingar yrðu auknar eins og hún kallar eftir muni hún ekki endurskoða hug sinn. Ekki sé um hótun að ræða.

María sendi samstarfsfólki sínu tölvupóst í gær þegar kvisast hafði út að hún hefði sagt upp. Í póstinum sem Fréttablaðið hefur undir höndum segir meðal annars: „Það er skemmst frá því að segja að mér hefur ekki tekist að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar – fastar fjárveitingar til okkar í dag eru beinlínis lægri á föstu verðlagi heldur en árið 2018,“ segir María og nefnir að mörg ný verkefni hafi bæst við.

„Fyrir hönd stofnunarinnar ber ég ábyrgð á þessari stöðu og hlýt að axla hana. Ég hef því sagt upp starfi mínu sem forstjóri. Uppsögnin tók gildi 1. desember.“

María segir að um mjög erfiða ákvörðun hafi verið að ræða.

„Það hefur hins vegar ekki tekist að styrkja rekstrargrundvöll hennar til að ná ásættanlegum árangri – að við getum rækt lögboðnar skyldur okkar með sóma og boðið samkeppnishæf laun. Við þessar aðstæður treysti ég mér því miður ekki til að bera ábyrgð á okkar mikilvægu verkefnum.“

Fátítt er að forstjórar ríkisstofana segi upp störfum á grunni þess að fjárveitingar skorti.