Lántaka borgarsjóðs Reykjavíkurborgar verður minni en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir, en gert er ráð fyrir að lántaka ársins verði um 25 milljarðar króna. Er það 28 prósentum minna en fyrri lántökuáætlun gerði ráð fyrir.

Skýrist það meðal annars af því að tekjur borgarinnar hafa verið hærri en gert var ráð fyrir.

Fyrr í vikunni lýstu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir áhyggjum af stöðugri skuldasöfnun borgarinnar.

Með tveggja milljarða lántöku í hverjum mánuði færi skuldastaða borgarinnar fljótlega yfir fjögur hundruð milljarða.

Í minnisblaði sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs kemur fram að borgin sé með ónýtta lántökuheimild upp á 15,4 milljarða á þessu ári.