Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Vöku hf., björgunarfélag til þess að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum, Steinari Má Gunnssteinssyni, bætur sem nema rúmlega þremur milljónum króna fyrir ólögmæta uppsögn auk þess sem félagið þarf að greiða málskostnað Steinars.

Kemur fram í dómskvaðningu að Steinar, sem hóf störf árið 1974 og því unnið hjá fyrirtækinu í 44 ár, hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust án uppsagnarfrests. Í bréfi sem afhent var Steinari, voru ástæðurnar sagðar vera alvarlegt trúnaðarbrot vegna bifreiðar Steinars sem skráð var til eigu fyrirtækisins Kraftflutninga. „Með því telur fyrirtækið þig vera aðila að starfsemi sem er í beinni samkeppni við Vöku hf.“

Í dómnum kemur fram að Steinar hafnar því alfarið að hafa gerst sekur um alvarlegt trúnaðabrot í samskiptum sínum við stefnda og neitar því að hafa haft vitneskju um að bifreið í hans eigu væri notuð í samkeppni við starfsemi stefnda. Bifreiðin hafi verið notuð jöfnuð höndum af honum og syni hans og hann hafi ekki fylgst með því hvernig sonurinn hafi notað hana en hafni því þó alfarið að bifreiðin hafi verið notuð í samkeppni við Vöku enda hafi hún ekki verið þannig útbúin.

Héraðsdómur telur að í málinu liggi ekki fyrir sönunn þess, svo óyggjandi sé að stefnandi hafi brotið gegn trúnaðar- og starfsskyldum sínum hjá Vöku að það réttlæti fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hans. Sé það því niðurstaða dómsins að fyrirvaralaus uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt.