Uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns Orku Náttúrunnar, var réttmæt að mati innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Niðurstöður úttektar á málum einstakra starfsmanna og vinnustaðarmenningar var kynnt fyrir stjórn OR í morgun. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sendi til allra starfsmanna fyrirtækisins rétt í þessu. Í tölvupóstinum, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, segir helga að uppsagnir Áslaugar Thelmu og Bjarna Más Júlíussonar hafi verið réttmætar að mati úttektarteymi. 

Hér má lesa fyrstu viðbrögð Áslaugar Thelmu við þessari frétt.

„Þeim voru gefnar ástæður fyrir uppsögnum en í úttektinni er okkur bent á tiltekna hluti sem betur hefðu mátt fara við framkvæmd uppsagna. Þær ræðum við betur við viðkomandi. Við fáum líka ábendingar um ferla og fleira sem við vinnum skipuklega úr eins og eftir aðrar úttektir,“ segir í tölvupósti Helgu. 

Þar þakkar hún einnig starfsmönnum þáttöku í könnun um vinnustaðarmenningu og þeim starfsmönnum sem veittu viðtöl í tengslum við hana eða safnaði gögnum fyrir úttektina. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fól Helgu á fundi stjórnar í morgun að tryggja umbætur á grunni ábendinga innri endurskoðenda fari í skýran farveg. Klukkan þrjú verða niðurstöður úttektarinnar kynntar á blaðamannafundi. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu hér.

Uppsögn og aðdragandi uppsagnar Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns markaðs- og kynningarmála hjá Orku náttúrunnar, dótturfélagi OR, varð kveikjan að því að vinnustaðamenning OR komst í kastljósið. 

Áslaugu var sagt upp störfum hjá ON í haust, skömmu eftir að hún vakti athygli yfirmanna sinna á framkomu Bjarna Más Júlíussonar, þáverandi framkvæmdastjóra ON, vegna óviðeigandi framkomu. Bjarna var í kjölfarið sagt upp störfum.

Áslaug frétti sjálf af blaðamannafundi Orkuveitu Reykjavíkur sem stendur nú yfir, í fjölmiðlum. „Ég hef ekki séð loka­skýrsl­una og mér var ekki gert viðvart um að hún og þá vænt­an­lega gögn um mína per­sónu­legu hagi yrðu gerð op­in­ber í dag,“ skrif­ar Áslaug Thelma í færslu á Face­book-síðu sinni.