Skurðlæknirinn og náttúruunnandinn Tómas Guðbjartsson hefur haft sig mjög í frammi í baráttunni gegn fyrirhugaðri virkjun Hvalár. Liður í þeirri baráttu er sérsýning á hinni vinsælu kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, í Háskólabíói í kvöld.

Sjá einnig: Baráttan gegn Hvalárvirkjun er rétt að byrja

Að sýningu lokinni fara fram umræður og Tómas er hæstánægður með áhugann sem sýningin og myndin almennt hafa fengið. „Það er með ólíkindum hversu jákvæðar viðtökurnar hafa verið,“ segir Tómas við Fréttablaðið og vísar þar bæði til þessarar sýningar en ekki síður myndarinnar sjálfrar sem er á miklu háflugi þessa dagana.

„Ég var búin að gæla við þessa hugmynd áður en myndin fór inn á Cannes, án þess að hafa séð hana sjálfur,“ segir Tómas sem þekkir bæði leikstjórann Benedikt Erlingsson og aðalleikkonuna Halldóru Geirharðsdóttur vel og áhuga þeirra á náttúruvernd.

„Það var svo auðvitað bara óvæntur bónus að sjá hvað myndin fékk frábæra dóma og mér finnst hún smella inn í það sem ég vona að sé breyttur tíðarandi þar sem augu fólks eru að opnast fyrir því hvað náttúran er verðmæt. Og að fólk  sjái hana öðruvísi en bara einhver megawött og að möguleikarnir liggi víðar en í stóriðju.“

Miðarnir á sýninguna í kvöld seldust upp fyrir hádegi í gær og færri komust að en vildu. „Fyrst var ég að gæla aðeins við að hafa þetta í stóra salnum og var búinn að taka hann frá,“ segir Tómas sem hvarf frá þeim áformum vegna útskrifta í Háskólanum sem settu strik í þann reikning.

„Við færðum okkur í aðeins minni sal en ég er sannfærður um að við hefðum getað troðfyllt stóra salinn en þetta er fínt svona.“

Sjá einnig: Lækna-Tómas leggur í ljónsgin Vestfirðinga

„Efni myndarinnar passar líka við það sem maður er sjálfur að reyna að berjast fyrir. Þetta er um margt óvenjuleg mynd og boðskapurinn hittir mann bara beint í hjartað,“ segir læknirinn sem er ekki ókunnugur hjartarótum. „Ég sagði við Benna um daginn að myndin hefði alveg eins getað heitið Læknir fer í stríð.“

Tómas segir „stríð“ stórt orð en því miður eigi það vel við um baráttuna fyrir náttúru landsins. „Það er leiðinlegt að þurfa að nota þetta orð en ég hef tekið þátt í ýmissi baráttu en þessi er sú allra, allra harðasta.

Ég hef barist fyrir auknum fjárframlögum til Landspítalans og í kjarabaráttu þegar ég var formaður Skurðlæknafélagsins svo eitthvað sé nefnt en þetta er einhvern veginn allt öðruvísi og gagnrýnin sem maður fær frá þeim sem ekki eru sammála er miklu hatrammari. Það skýrist kannski af því hversu rosalega miklir hagsmunir og peningar liggja þarna að baki.“

Sjá einnig: Okkar stríð

Tómas og félagi hans Ólafur Már Björnsson læknir hafa talað ákaft fyrir verndun fossa á Vestfjörðum og meðal annars flutt vestfirðingum boðskap sinn í máli og myndum. „Það er alveg hægt að segja að fyrir vestan hafi maður fengið vægast sagt óblíðar móttökur en það er samt ekkert sem hvorki ég né Óli áttum ekki von á.“

Tómas segir þá hafa verið varaða við „áður en við fórum af stað og við verðum bara að taka þessu  og kveinkum okkur ekkert. Andri Snær, Ómar Ragnarsson, Björk og fleiri sem hafa barist fyrir náttúruna hafa þessa sömu sögu að segja.

Við erum ekki með nein peningaöfl á bak við okkur og enga aðra hagsmuni en að vernda náttúruna þannig að okkur finnst málstaður okkar frekar góður.“