Sandra Bryndísardóttir Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir að óvissan sem fylgi fyrirvaralausum uppsögnum á Reykjalundi gæti haft neikvæð áhrif á líðan sjúklinga.

„Fólk er þarna af ástæðu, það sækir sér í betri heilsu vegna áfalla, verkja eða veikinda. Svo bætist þessi óvissa ofan á. Það er aldrei gott.“

Starfsmenn Reykjalundar hafa lýst yfir van­trausti á stjórn Reykja­lundar eftir að Birgir Gunnarsson forstjóri og Magnús Ólason forstöðumaður lækninga voru reknir fyrirvaralaust. Starfsmenn óska eftir því að Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra grípi inn í stöðu mála með hverjum þeim hætti sem hún telur sér heimilt. Á­kveðið var á fundi starfs­fólks Reykja­lundar í morgun að gefa ­sjúk­lingum frí í dag þar sem starfs­fólk treysti sér ekki til að við­halda starf­seminni.

Sandra segir að sjúkraliðar á Reykjalundi hafi ekki lýst yfir vanlíðan í starfi á hennar tíð og að ákvörðun stjórnarinnar komi eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Reykjalundur er ein stærsta endurhæfingarstöð landsins en þar starfa um 200 manns. Þar er að finna félagsráðgjafa, heilsuþjálfara, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, íþróttakennara, lækna, næringarráðgjafa, sálfræðinga, sjúkraliða, sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga.

Sandra segist þekkja starfsemina frá gamalli tíð og hafi það að hennar mati alltaf verið framúrskarandi. Sjúkraliðafélagi Íslands hafi ekki borist tilkynning um óánægju sjúkraliða með starfsemina og komi því uppsagnirnar á óvart.

„Maður áttar sig ekki á þessari stöðu í Reykjalundi. Mér finnst þetta óábyrgt hvernig stjórnin stendur að þessu, að víkja fólki úr starfi svona fyrirvaralaust. Auðvitað getur eitthvað legið að baki þessara ákvarðana en þessi óánægja hjá stjórninni hefur ekki smitast ofan í starfið sem sjúkraliðar standa að.“

Sandra segir það óábyrgt af stjórninni að víkja þeim úr starfi fyrirvaralaust þar sem það gæti haft áhrif á líðan sjúklinga.

„Ég væri miður mín ef ég væri á Reykjalundi og endurhæfingalækni mínum væri vikið úr starfi fyrirvaralaust. Ég velti fyrir mér hvernig áhrif þetta hefur á heilsufar og bata einstaklinganna sem eru þar í meðferð. Fólk er þarna af ástæðu, það sækir sér í betri heilsu vegna áfalla, verkja eða veikinda. Svo bætist þessi óvissa ofan á. Það er aldrei gott,“ segir Sandra.