Ellefu starfsmönnum á skrifstofu bókunarvefsins og ferðaþjónustufyrirtækisins Guide to Iceland hefur verið sagt upp á rúmlega tveimur mánuðum, eða síðan WOW air varð gjaldþrota. Öðru starfsfólki var gert að taka á sig mismiklar launalækkanir. Að sögn heimilda Fréttablaðsins hefur því starfsfólki sem neitaði að samþykkja launalækkanir verið sagt upp.

Davíð Ólafur Ingimarsson, forstjóri Guide to Iceland, segir að stjórnendur hafi einnig tekið á sig launalækkanir. Aðspurður segir hann fyrirtækið finna fyrir höggi eftir gjaldþrot WOW air.

„Við höfum vissulega fundið fyrir því að íslenski ferðaþjónustumarkaðurinn sé að dragast saman. Það er ólíklegt að eingöngu fall Wow air sé það eina sem er að valda því en aðrir þættir sem hafa áhrif eru meðal annars hátt verðlag á Íslandi, versnandi heimsefnahagur, Brexit og minnkandi kaupmáttur,“ segir Davíð í samtali við Fréttablaðið.

Færðu fyrirtækið til Spánar í viku

Guide to Iceland bauð starfsmönnum sínum að ferðast til Spánar og vinna þaðan í viku í mars síðastliðnum. Um þriðjungur starfsmanna þáði boðið og vann sína venjubundnu vinnuviku þar. Fyrirtækið borgaði fyrir flug, gistingu og leigu á skrifstofuhúsnæði í borginni Sevilla.

Greiddu 600 milljóna króna arð til hluthafa

Bandaríska eignastýringar- og ráðgjafafyrirtækið State Street Global Advisors fjárfesti í Guide to Iceland fyrir 20 milljónir dala sem er jafnvirði 2,2 milljarða króna, en það var í fyrsta sinn sem fyrirtækið sótti sér erlent fjármagn.

Guide to Iceland hagnaðist um 676 milljónir rekstrarárið 2017 og samþykkti stjórn félagsins að greiða 600 milljóna króna arð til hluthafa. Fyrirtækið vann fyrstu verðlaun endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækisins Deloitte árið 2017 fyrir örasta vöxt íslensks fyrirtækis.

Stærsti hluthafi í Guide to Iceland er Ingólfur Abraham Shahin með 55,3 prósenta hlut í gegnum félagið Djengis.

Fréttin hefur verið uppfærð.