Tveir starfsmenn Sandgerðisskóla hafa sagt upp störfum við skólann nýverið og munu þær tengjast óánægju með viðbrögð við máli sem varðar meinta kynferðisáreitni af hálfu konu í stjórnunarstöðu í skólanum gagnvart öðrum starfsmanni.

Eins og Fréttablaðið greindi frá var málið kært til lögreglu en rannsókn þess var felld niður, að sögn þolandans, vegna ónægra sannanna. Aðilar málsins hittust í kjölfarið á sáttafundi þar sem málinu var lokið af þeirra hálfu, en innan skólans ríkir enn mikil óánægja með hvernig lyktir þess urðu og hvernig yfirvöld bæjarins tóku á því.

Segir starfsumhverfið eitrað

Jenný Halldórsdóttir, sérkennari við skólann segir umhverfið innan skólans orðið eitrað. Málið varðar konu sem er bæði deildarstjóri í skólanum og fulltrúi í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, en meintur þolandi hennar var 18 ára þegar atvik máls gerðust.

„Ástandið innan veggja skólans versnaði mikið eftir sáttafund sem deildarstjórinn og meintur þolandi áttu með lögmönnum sínum. Hann gekk þokkalega sáttur frá þeim fundi en fljótlega eftir þann sáttafund fóru sögur að berast um bæinn, að hann hefði verið að ljúga um áreitið,“ segir Jenný en hún er ein þeirra sem sagt hefur upp starfi sínu vegna málsins.

Hún segist vita um aðra uppsögn vegna málsins og að enn aðrir íhugi að hætta.

„Fagmenntað fólk er að hrökklast úr störfum sínum þar sem það er ósátt við þöggunina og gerendameðvirkni sem fær að viðgangast. Að auki finna starfsmenn fyrir óöryggi í starfi, ef þeir myndu sjálfir lenda í slíku áreiti,“ segir hún og bætir við að deildarstjórinn gangi brosandi um gangana líkt og ekkert hafi í skorist.

Aðspurð segir Jenný að skólastjórnendur hefðu viljað ganga lengra með málið en bæjarstjórn stoppi það af.

Skólastjórinn í leyfi

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að skólastjóri Sandgerðisskóla hafi sagt starfi sínu lausu áður en málið kom upp í mars og hefur staða hennar þegar verið auglýst á vef sveitarfélagsins.

Heimildir blaðsins herma að hún hafi nýverið tilkynnt samstarfsfólki sínu að hún muni ekki vinna uppsagnarfrestinn og er komin í leyfi út uppsagnarfrestinn.

Bæjaryfirvöld neita að svara

Fréttablaðið óskaði eftir svörum frá Magnúsi Stefánssyni, bæjarstjóra Suðurnesjabæjar, um hvernig tekið sé á málum stjórnenda sem sakaðir eru um kynferðislega áreitni í skólanum. Í svari hans kemur fram að unnið sé eftir aðgerðaætlun þar um:

„Ef upp koma mál er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega háttsemi innan stofnana eða vinnustaða Suðurnesjabæjar, er unnið úr þeim málum eftir aðgerðaáætlun þar um. Gildir þar einu af hvaða kyni mögulegir aðilar máls eru. Ef slík mál koma upp tjáir sveitarfélagið og stjórnendur þess sig ekki um einstök mál er varða einstaka starfsmenn.“

Beiðni Fréttablaðsins um nánari upplýsingar um efni umræddrar áætlunnar var ekki svarað.

Málið ekki ratað inn á borð bæjarráðs

Einar Jón Pálsson, forseti bæjarráðs segir aðspurður að málið hafi ekki verið tekið fyrir í bæjarráði, þar sem það hefur aldrei ratað inn á þeirra borð.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var deildarstjórinn send í þriggja vikna leyfi en hefur komið aftur til starfa sem stjórnandi innan skólans.

Skólastjóri Sandgerðisskóla, hefur sem fyrr segir sagt starfi sínu lausu og er ekki lengur að störfum, eftir því sem Fréttablaðið kemst næst. Bylgja Baldursdóttir, aðstoðarskólastjóri neitar að svara fyrirspurn blaðsins um meðferð mála af þessum toga af hálfu skólastjórnenda en bendir á bæjaryfirvöld.