Evrópulögreglan, Europol, tilkynnti í gær að 61 einstaklingur hefði verið kærður fyrir aðild að fíkniefnahring sem teygði anga sína til átta landa og átti stóran þátt í stöðugu flæði kókaíns í Evrópu.

Meðal annars voru haldlögð 2,6 tonn af kókaíni, níu lúxusbifreiðir, 324 kíló af kannabisefnum og rúmlega 612 þúsund evrur í reiðufé.

Aðgerðin var unnin í samstarfi við yfirvöld á Spáni, í Króatíu, Serbíu, Þýskalandi, Slóveníu, Bosníu og Hersegóvínu, Bandaríkjunum og Kólumbíu.

Stærstur hluti hinna handteknu er frá Serbíu, Króatíu, Svartfjallalandi og Slóveníu.

Rannsóknin hófst á ábendingu um að einstaklingarnir ættu von á 1,2 tonna sendingu af kókaíni síðasta vor þegar þrettán voru handteknir. Í kjölfarið voru 48 aðrir handteknir í aðgerðum víða um Evrópu.