Mikil ólga er nú innan Miðflokksins eftir að félagsfundur felldi tillögu uppstillingarnefndar um framboðslista í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir komandi alþingiskosningar.

Tillagan fól í sér að Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, yrði oddviti í kjördæminu. Sitjandi þingmaður kjördæmisins, Þorsteinn Sæmundsson, hafði gefið kost á sér til að leiða listann, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hann ekki á lista uppstillingarnefndar.

Heimildir blaðsins herma að stuðningsmenn og fjölskylda Þorsteins hafi fjölmennt á félagsfundinn til að fella listann. Féllu atkvæði á fundinum þannig að fjórtán vildu styðja staðfesta listann, en þrjátíu greiddu atkvæði gegn honum.

Formaður kjördæmafélagsins í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir ekki liggja fyrir hvað gerist næst í framboðslistamálum, og hvort uppstillingarnefndin haldi áfram störfum og skili nýjum lista. „Það sem gerist núna er að stjórnin hittist og ræðir málið. Svo sendum við eitthvað frá okkur þegar við höfum tekið ákvörðun.“

Niðurstaða félagsfundarins kom flestum í opna skjöldu, þrátt fyrir að ljóst hafi verið að tveir vildu leiða listann. Herma heimildir blaðsins að allt leiki á reiðiskjálfi innan flokksins og flokksmenn séu ósáttir við framgöngu Þorsteins. Fjóla er hins vegar mjög vinsæl í flokknum og af mörgum sem Fréttablaðið ræddi við, talin einn allra öflugasti liðsmaður flokksins. Þá herma heimildir einnig að mjög hafi verið þrýst á hana að þiggja oddvitasæti og því mikið áfall að hún fái þessa útreið á félagsfundi. Eins og Fréttablaðið hefur áður fjallað um hafa framámenn í flokknum unnið sérstaklega að því að auka hlut kvenna í framvarðasveit flokksins.

Sjálf segist Fjóla Hrund ekkert vita um framhaldið. „Það sem gerist er að uppstillingarnefnd kemur fram með ákveðinn lista. Það var skýr áhugi meðal flokksmanna að það yrðu breytingar,“ segir hún og bætir við: „Þarna var kynntur nýr, öflugur listi, en sitjandi oddviti fór þá leið að fella listann, sem er afar sjaldgæft.“

Þorsteinn segir aftur á móti að þetta sýni að lýðræðið sé virkt í Miðflokknum. „Stuðningsmenn mínir voru ekki ánægðir með minn hlut og nýttu sér sinn lýðræðislega rétt til að gera athugasemdir,“ segir Þorsteinn og telur að málið muni leysast og flokkurinn koma sterkari fram en áður.

„Þetta mál beinist ekki gegn einum né neinum og allra síst Fjólu Hrund Björnsdóttur, sem er stórkostleg kona,“ segir Þorsteinn, sem hefur ekki í hyggju að hætta í stjórnmálum á næstunni. „Ég hef margoft lýst því yfir að ég vilji leiða þennan lista áfram. Landssamband eldri borgara hefur kallað eftir því að fólk á þeim aldri sé í áhrifastöðum í flokkunum, ég er 67 ára gamall og flokkurinn getur svarað þessu kalli. Ég á líka eftir að klára ýmis mál, ég tel að þegar allt kemur til alls verði Miðflokkurinn með stefnu í málum eldra fólks líkt og enginn annar.“