Óhætt er að segja að stemmingin í einni fjölmennustu Facebook-grúppu landsins, Keypt í Costco Ísl.- Myndir og verð., hafi súrnað að undanförnu. Mikil umræða hefur farið fram í hópnum í febrúar og mars vegna verðhækkana, aðallega á matvöru.

Hækkanir á innfluttri matvöru hafa farið hvað mest fyrir brjóstið á notendum síðunnar, sem eru 96 þúsund talsins.

Þannig segir notandi frá því að frosinn kjúklingur hafi kostað 2.500 krónur fyrir hálfu ári en að hann kosti 4.300 krónur nú. Skinka er sögð hafa snarhækkað í verði, eins og vorrúllur með andakjöti. Vorrúllurnar kostuðu, samkvæmt mynd af strimli, 1.299 krónur fyrir nokkru en þær kosta nú 3.249 krónur. Það er 150 prósent hækkun.

Sjá einnig: Káta Costco-fólkið vonar að risinn fylgist með þeim

„Íslenskur rugludallur“ sem stjórnar?

„Mér finnst ekki lengur jafn góður kostur að fara í Costco. Stend mig að því að sleppa því eftir sem þeir hækka vörurnar,“ skrifar óánægður viðskiptavinur en margir lýsa þeirri skoðun sinni í hópnum að verðalagningin sé mun hærri en síðastliðið sumar, þegar verslunin var opnuð. „Það hlýtur að vera einhver íslenskur rugludallur sem stjórnar þessu bull verðlagningu, satt best að segja held ég að þeir séu að okra sig út af markaðnum,“ segir annar.

Sjá einnig: Tilkoma Costco hefur ekki lækkað verð á sjónvörpum

Fleiri verðdæmi hafa ratað inn á síðuna en tekið skal fram að hér er um að ræða upplýsingar frá viðskiptavinunum sjálfum, sem ekki hafa verið sannreyndar.

Í fyrradag benti einn viðskiptavinur á að Foxwood-kjúklingavængir kosti nú 2.300 krónur kílóið en að hægt sé að fá kjúklingavængi í Bónus á 280 krónur á kíló. „Þetta er nú orðið meira ruglið,“ skrifar hann.

Sjá einnig: 71% landsmanna með aðild að Costco

Mozzarella hækkar um 122%

Í öðrum pósti er fullyrt að innflutt G-mjólk hafi næstum því tvöfaldast í verði skömmum tíma. Eplasafi, 12 lítrar í pakka, hafi kostað 749 krónur um miðjan júní en kosti í dag 1.229 krónur. Það er 64 prósent hækkun.

Mozzarella-ostur, í 2,3 kílóa umbúðum kostaði 1.999 krónur í febrúar, að sögn viðskiptavinar, en kostar nú 4.439 krónur. Hækkunin nemur 122 prósentum. „Það er allt að hækka hjá þeim, ef þetta verða viðvarandi hækkanir þá geta þeir lokað,“ segir einn sem skrifar athugsemd við færsluna. Á það er hins vegar bent að tollar á innfluttum ostum hafi hækkað um áramót.

Leikföng virðast líka hafa hækkað, ef marka má meðlimi síðunnar. Þannig segist einn notandi hafa keypt tvær vatnsbyssur í pakka á tæpar 300 krónur fyrir jól en að verðið sé nú tæpar þrjú þúsund krónur. Það er tíföld hækkun, ef rétt er með farið.

Sjá einnig: Hægt að gera reyfarakaup í heimilistækjum

Meðlimakortin renna flest út í sumar

Í hópnum er bent á að meðlimakortin muni flest renna út í maí. Allnokkur umræða hefur farið fram þar sem fólk veltir vöngum yfir því hversu margir muni endurnýja kortin. „Ég mun ekki endurnýja kortið mitt,“ skrifar einn notandinn ákveðinn. „Það er ekki þess virði. Okur eins og hinir,“ skrifar hann og nokkrir taka undir. „Costco er að verða stjörnuhrap ársins. Fer í Costco en svakalega er ég varðbergi gagnvart verðinu,“ skrifar annar.

Sjá einnig: Bónus hefur keyrt niður vöruverð eftir komu Costco