Fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis var frestað í morgun eftir að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerði tillögu um að Miðflokksmaðurinn Karl Gauti Hjaltason yrði formaður nefndarinnar.

Samkvæmt samkomulagi þingflokka á Miðflokkurinn formennsku í nefndinni en Bergþór Ólason, sem gegndi formennsku, vék sæti eftir að Klaustursmálið kom upp. Tók Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, við tímabundið.

Jón stýrði fundi nefndarinnar í morgun og var eina málið á dagskrá kjör formanns og varaformanns. Píratar hafa lýst yfir óánægju með að Miðflokkurinn hygðist gera Bergþór aftur að formanni vegna þáttar síns í Klaustursmálinu.

„Ég er persónulega að segja að mér finnst að Bergþór eigi ekki að vera formaður en ég virði samkomulagið alveg. Fyrst að það er annar Miðflokksmaður í nefndinni finnst mér frekar að hann eigi að vera formaður. Þannig ég stakk frekar upp á Karli Gauta enda er hann mjög hæfur í þetta,“ segir Björn Leví.

Haft var eftir Karli Gauta á RÚV að honum hefði ekki gefist ráðrúm á fundinum í morgun til að hafna tilnefningu í formannsstólinn.

Eftir að tillaga Björns Leví var borin upp var fundi frestað. Í kjölfarið fundaði meirihluti nefndarinnar með Miðflokksmönnunum. Því næst funduðu nefndarmenn meirihlutans örstutt og var fundi svo slitið í kjölfarið og sagt að næsti fundur yrði boðaður seinna.

Björn Leví segist ekki hafa hugmynd um hvenær sá fundur verði haldinn.