Samtökin Líf án ofbeldis hafa á Facebook í dag vakið athygli á því að það standi til að flytja barn, gegn vilja sínum, til föður þess samkvæmt úrskurði dómstóla. Barnið er langveikt og er statt á spítalanum í lyfjagjöf. Á spítalanum eru fulltrúar lögreglu, barnaverndar og sýslumanns til að framfylgja úrskurðinum en einnig hefur safnast saman nokkur fjöldi fólks til að mótmæla aðgerðinni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er verið að reyna að flytja barnið núna en barnið er ekki í samstarfi við þau og því hefur það gengið illa.
Sigríður Kristinsdóttir segir að aðgerð sýslumanns, barnaverndar Reykjavíkur og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Barnaspítala Hringsins í dag sé til að framfylgja úrskurði dómstóla í forsjármáli.
Samkvæmt færslu Lífs án ofbeldis á Facebook um málið er það gegn vilja barnsins en samtökin segja að rökstuddur grunur sé um langvarandi ofbeldi föður barnsins gegn bæði móður barnsins og því sjálfu.
„Það er verið að framfylgja úrskurði. Það er okkar verkefni að gera það og þess vegna er gætt að allra skilyrða og barnavernd með,“ segir Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, um málið en í samræmi við verklagsreglur í slíkum málum er lögreglan einnig á vettvangi.

Vinna eftir verklagsreglum
„Við erum með verklagsreglur um það hvernig skal farið þegar svona mál koma á okkar borð og það er haldin fundur með barnaverndarnefnd og lögreglu og svo farið á staðinn og ekkert gert sem ekki samræmist því sem á að gera þarna,“ segir Sigríður.
Er verið að sækja barnið á spítalann því það er þar í meðferð?
„Ég get ekki svarað því en barnið á að fara til föður síns og það er úrskurður um það frá dómstóli og það er verið að framfylgja því. Það er verkefni sýslumanns að framkvæma það og meira er í sjálfu sér ekki hægt að segja. Þetta eru rosalega erfið mál og sem betur fer koma þau ekki oft upp,“ segir Sigríður og að það sé virkilega vandað til verka.
Þurfa að framfylgja úrskurði
Spurð um það hvort að mótmæli og athygli málsins á Facebook hafi einhver áhrif á aðgerðina segir Sigríður að þau eigi að framfylgja úrskurði, það séu verklagsreglur og að ekkert sé gert sem ekki samræmist aðstæðum á staðnum.
„Það má ekki gleyma því að þetta er úrskurður og ef það er einhver mótþrói við að framfylgja honum höfum við ekkert um það að segja. Við erum að vinna vinnuna okkar,“ segir Sigríður.
Réttur barnsins er nokkur í slíkum málum og þegar málið er komið í dreifingu og fólk komið á staðinn til að mótmæla, er þá endurskoðað hvort að það þurfi að gera það þá og þegar?
„Það er alltaf verið að endurskoða. Þarna er barnavernd og lögreglan og sérfræðingar í málefnum barna sem koma að þessu til þess einmitt að þetta hafi ekki slæm áhrif á barnið. En það er auðvitað ömurlegt út af fyrir sig að þessi staða sé uppi. Okkur ber að framfylgja þessum úrskurði og vöndum það og köllum til sérfræðinga og þeir eru með á vettvangi.“